Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Yfir tíu þúsund á enskum sjúkrahúsum með COVID-19

epa09657801 A woman exits St. Thomas's hospital in London, Britain, 27 December 2021. The UK government is expected to announce if further Covid restrictions will be required to curb the spread of the Omicron variant. British Prime Minister Boris Johnson is to receive new data from scientists. Pubs and restaurants are most at risk if further restrictions are implemented.  EPA-EFE/ANDY RAIN
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Alls liggja nú yfir tíu þúsund á enskum sjúkrahúsum með COVID-19 sem er mesti fjöldi frá því 1. mars síðastliðinn. Smitum fjölgar mjög á Bretlandseyjum af völdum omíkron-afbrigðisins.

Yfir 183 þúsund ný tilfelli greindust síðasta sólarhring. Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands heimsótti bólusetningarmiðstöð í borginni Milton Keynes á Mið-Englandi í gær og hvatti fólk til að fara í sýnatöku ætli það sér að taka þátt í áramótafagnaði.

Mikil eftirspurn hefur verið eftir heimaprófum og um tíma var óttast að þau yrðu uppurin en heilbrigðisyfirvöld ætla að tryggja að nóg verði til af þeim. Eins áréttaði Johnson mikilvægi örvunarbólusetningar og sagði yfirgnæfandi meirihluta þeirra sem liggja á gjörgæsludeildum ekki hafa þegið hana.

Johnson vitnaði í orð lækna máli sínu til stuðnings. Yfir 33 milljónir Breta hafa þegar fengið örvunarbólusetningu en Johnson hefur heitið því að öllum fullorðnum bjóðist að fara í hana fyrir árslok.

Johnson varði þá ákvörðun sína að herða ekki á samkomutakmörkunum á Englandi yfir jól og áramót með vísan til þess hve margir hefðu þegið örvunarskammt.

Eins sagði hann mikilvægt að hafa í huga að veikindi af völdum omíkron virðast mildari en af fyrri afbrigðum. Á Skotlandi, Norður-Írlandi og í Wales var hert á takmörkunum, meðal annars með lokun næturklúbba.