Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Veitingamenn uggandi yfir ástandinu

30.12.2021 - 18:36
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
„Það er ljóst að þetta gengur ekki lengur. Aðgerðir stjórnvalda eru eingöngu íþyngjandi og engar lausnir eða úrræði í sjónmáli,“ segir í færslu á Facebooksíðu Bruggstofunnar & Honkítonk BBQ þar sem boðað er að staðurinn verði lokaður út janúar, að minnsta kosti. Viðvarandi samkomubann og hæstu áfengisgjöld í Evrópu eru einnig nefnd til sögunnar í færslunni. Jón Bjarni Steinsson, skattalögfræðingur og veitingamaður, sagði í samtali við Síðdegisútvarpið á Rás 2 að óvissan sé erfiðust.

Í nýsamþykktu fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar segir að milljarður króna í sérstakan stuðning við fyrirtæki í veitingarekstri vegna afleiðinga kórónuveirufaraldursins sé eitt af áhersluverkefnum þess. Ekki er þó tilgreint sérstaklega hvenær eða hvernig þeim verður dreift, eða hverjir fá úthlutað stuðningi, benti Jón Bjarni á í Síðdegisútvarpinu. Hann segir að margir veitingamenn hafi haldið að þetta yrði skýrt í fjárlagafrumvarpinu, en engin áætlun sé sjáanleg um hvernig eigi að úthluta þessum stuðningsgreiðslum.

Hann sagði þær leiðir sem hafi verið farnar fyrr í faraldrinum hafa komið sér vel, á borð við tekjufallsstyrki, lokunarstyrki og hlutabótaleið. En til þess að geta horft fram á við verði eigendur og rekstraraðilar að vita hvert plan stjórnvalda er svo hægt sé að setja upp rekstraráætlun.

Mynd: RÚV / RÚV

Sigurður Pétur Snorrason, einn stjórnenda RVK brugghúss, sagði í samtali við fréttastofu að staðan væri ekki jafn svört og sá sem skrifaði Facebookfærslu Bruggstofunnar og Honkítonk BBQ greindi frá. RVK rekur veitingastaðinn, auk brugghússbars við Skipholt. Í Facebookfærslunni segir að dagurinn í dag verði síðasti opnunardagur í bili, og staðurinn verði lokaður í janúar. 

Sigurður Pétur segir RVK síður en svo vera að gefast upp. RVK brugghús hafi aldrei staðið betur og mikil aukning hafi verið á sölu hjá þeim á þessu ári. Brugghúsið jók til að mynda hlut sinn í jólabjórssölu í ár, ekki síst vegna umtalaðs ORA jólabjórs. Á meðan sala á jólabjór sé að dragast saman þá hafi RVK aukið sölu á jólabjór um 50% á milli ára að sögn Sigurðar Péturs.

Góður gangur í brugghúsinu

RVK hefur rekið bruggstofu í brugghúsi sínu við Skipholt. Í júlí í ár opnuðu þeir svo Bruggstofuna & Honkítonk BBQ við Snorrabraut, rétt áður en samkomutakmarkanir voru hertar. Síðan veitingastaðurinn opnaði hefur rekstrargrundvöllurinn verið erfiður vegna breytilegra samkomutakmarkanna. Sigurður segir að ákveðið hafi verið að loka staðnum tímabundið í janúar, sem jafnan sé frekar daufur mánuður í veitingarekstri. Á meðan verða gerðar áherslubreytingar og betri stoðum komið undir reksturinn.  

En á meðan veitingareksturinn er dapur er brugghúsið sjálft í blóma að sögn Sigurðar. Sala RVK á bjór er 60% umfram framleiðslugetu brugghússins, og hefur það því þurft að reiða sig á önnur brugghús til að anna framleiðslunni. Til stendur að stækka bruggsmiðju fyrirtækisins og áttfalda framleiðslugetu þess árið 2022. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV