
Pútín og Biden ræðast við á ný
Spenna milli Rússlands og vesturveldanna hefur vaxið undanfarna mánuði, einkum vegna fjölmenns herliðs Rússa við austurlandamæri Úkraínu. Bandaríkjamenn hafa verið í fararbroddi þeirra sem vara við því að innrás kunni að vera yfirvofandi í vetur. Rússar hafa jafnan harðneitað því.
Vladimír Pútín sagði í dag í skilaboðum til þjóðarleiðtoga heimsins í tilefni jóla og áramóta að hann væri sannfærður um að deilur Rússa og Bandaríkjamanna væri hægt að leysa við samningaborðið. Viðræðurnar yrðu þó að byggjast á gagnkvæmri virðingu og að hagsmunir beggja yrðu virtir.
Ákveðið hefur verið að sendinefndir þjóðanna hittist í Genf í Sviss tíunda janúar þar sem ætlunin er að ræða leiðir til lausnar. Vladimír Pútín og Joe Biden Bandaríkjaforseti tala saman í síma klukkan hálfníu í kvöld, í annað sinn á innan við mánuði. Fjölmiðlar hafa eftir hátt settum embættismanni Bandaríkjastjórnar að Biden sé reiðubúinn til viðræðna, en jafnframt tilbúinn að bregðast við ef frekari vísbendingar berast um áform Rússa um innrás í Úkraínu.
Stjórnvöld í Kreml segja að valdajafnvæginu í Evrópu hafi verið raskað. Þau krefjast þess að löndum verði ekki fjölgað í Evrópusambandinu og að Bandaríkjamenn komi sér ekki upp herstöðvum í löndunum sem áður tilheyrðu Sovétríkjunum.