Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Leggja til fækkun bílferða til að draga úr mengun

Mynd með færslu
 Mynd:
Talsverð mengun af völdum köfnunarefnisdíoxíðs og svifryks var á höfuðborgarsvæðinu í morgun og fram yfir hádegi. Klukkan 13 mældist svifriksmengun 134 míkrógrömm á rúmmetra við Grensásveg í Reykjavík, sem er talsvert yfir heilsuverndarmörkum.

Í fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að sólarhringsheilsuverndarmörk fyrir svifryk séu 50 míkrógrömm á rúmmetra. Klukkan 13 mældust 117,7 míkrógrömm á rúmmetra af köfnunarefnisdíoxíði á mælinum við Grensásveg, en sólarhringsheilsuverndarmörk efnisins eru 75 míkrógrömm á rúmmetra.

Mikil svifryksmengun er einnig við Dalsmára í Kópavogi, þar sem 126,6 míkrógrömm mældust á rúmmetra klukkan 14. Á mælinum við Vesturbæjarlaug í Reykjavík fór svifryksmengun hæst í 105,4 míkrógrömm á rúmmetra klukkan 12 á hádegi.

Í tilkynningu borgarinnar er greint frá því að mengun frá köfnunarefnisdíoxíði komi frá útblæstri bíla. Hún er mest á morgana og eftirmiðdaginn þegar umferð er hvað mest. Svifryk er af völdum uppspænds malbiks, jarðvegsagna, salts og sóts úr útblæstri bíla. Nú er hægur vindur og götur eru þurrar og búist við því að aðstæður verði svipaðar fram á morgundaginn. Því eru líkur á mengun við umferðargötur nú seinni partinn og mögulega á morgun.

Börnum og fólki sem er viðkvæmt fyrir í öndunarfærum er ráðlagt að forðast útivist og takmarka áreynslu í nágrenni stórra umferðargatna þegar ástandið er með þessu  móti. Reykjavíkurborg segir hægt að draga úr þessari mengun með því að fækka bílferðum. Hægt er að fylgjast með mengunarmælum um landið allt á vefnum loftgæði.is. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV