
Blinken fordæmir atlögu að fjölmiðlum í Hong Kong
Aðgerðum öryggislögreglunnar hefur verið mótmælt víða um heim. Blinken segir þær grafa undan trúverðugleika héraðsins og lífvænleika og krefst þess að blaðamenn og útgefendur verði þegar látnir lausir.
Hann segir að sjálfsörugg stjórnvöld sem ekki óttist sannleikann fagni og styðji við frjálsa fjölmiðlun. „Fréttamennska er ekki uppreisnaráróður,“ segir Blinken og hvetur kínversk stjórnvöld til að hætta að beina spjótum sínum að fjölmiðlum í Hong Kong.
Héraðið hefur löngum verið fjármálamiðstöð svæðisins og þungamiðja alþjóðlegrar fjölmiðlunar en öryggislöggjöf sem var sett sumarið 2020 hefur sett slíkri starfsemi stólinn fyrir dyrnar.
Kveikjan að löggjöfinni voru harðvítug mótmæli gegn yfirráðum Kína í Hong Kong árið 2019. Stjórnvöld í Peking segja hana nauðsynlega til að koma í veg fyrir andóf, hryðjuverkastarfsemi og glæpsamlegt athæfi.
Meðal þeirra sem handtekin voru í aðgerðum öryggislögreglunnar eru aðalritstjórinn Patrick Lam og poppstjarnan Denise Ho en hún lét af störfum í útgáfustjórn Stand News í nóvember.
Þetta er í annað sinn sem yfirvöld beina spjótum sínum með beinum aðgerðum að fjölmiðli í borginni en útgáfu Apple Daily var hætt í júní eftir að eignir miðilsins voru frystar.