Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Stytta tímabil innflutningstolla á grænmeti

29.12.2021 - 16:58
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Alþingi samþykkti í gær breytingar á tollalögum sem fela í sér að tímabil tollverndar á innfluttu grænmeti verður styttra á næsta ári en verið hefur. Þannig verður hægt að flytja inn grænmeti yfir lengra tímabil án þess að greiða tolla. Framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda fagnar breytingunni.

Hér á landi eru lagðir á tollar á innflutt grænmeti á þeim tíma sem innlend framleiðsla er yfirleitt í boði. Tímabilin sem tollarnir eru við líði eru misjöfn á milli grænmetistegunda. 

Lögum um innflutningstolla var breytt fyrir um tveimur árum. Áður gat landbúnaðarráðherra lagt á tolla ef innlend framleiðsla var næg og fellt niður ef íslenskt grænmeti var uppurið. Núna er það þannig að tollarnir leggjast sjálfkrafa á innflutning á til að mynda blómkáli og sellerí fimmtánda ágúst en fyrsta júlí á spergilkál. 

Þessu á að breyta á komandi ári. Tollar á spergilkál leggst á 15. ágúst svo fram að því verða engir innflutningstollar. Einnig leggjast tollarnir á næsta ári á gulrætur ekki á fyrr en um miðjan september í stað fyrsta ágúst. Fram til þessa hafa tollar verið á kartöflur allt árið en á næsta ári verða þeir afnumdir í júní til að bregðast við aukinni eftirspurn og bregðast við fyrirséðum skorti á innlendri framleiðslu vegna kartöflumyglu í Þykkvabæ í haust.

Tollatímabili hvítkáls verður einnig seinkað og það stytt. Nánari  breytingar má sjá hér að neðan. Rauðu dálkarnir eru tímabil tollaálagningar eins og þau voru í ár og í fyrra en grænu gilda fyrir næsta ár. Eins má sjá myndina með því að smella hér.

Mynd með færslu
 Mynd: FA - RÚV

Ástæða þessara breytinga er fyrst og fremst til kominn vegna skorts á ýmsum tegundum grænmetis, eins og til að mynda blómkáli og spergilkáli sem innlend framleiðsla nær ekki að anna allt árið um kring. Í haust varð svo vart við nokkurn skort á selleríi. Innflytjendur treystu sér ekki til að flytja þessar vörur inn á meðan tollverndarinnar naut við. 

Á næsta ári stendur til að gera nýjan búvörusamning við garðyrkjubændur, og því gilda þessar breytingar aðeins fyrir næsta ár. Í núgildandi búvörusamningi við garðyrkjubændur kemur fram að á árinu 2020 hafi átt að láta greina hagkvæmni þess að taka upp uppskerutengdar greiðslur vegna útiræktunar gegn mögulegri niðurfellingu og/eða lækkunar tollverndar. Þær niðurstöður skulu metnar við endurskoðun samningsins árið 2023. 

„Það er einkar ánægjulegt að þessi tímabundna lausn fannst á þeim vandkvæðum, sem gölluð löggjöf skapaði á grænmetismarkaðnum, í góðu samstarfi okkar, Bændasamtakanna og stjórnvalda. Það er mikið hagsmunamál neytenda og ekki síður fyrirtækja sem flytja inn grænmeti að háir tollar séu ekki lagðir á innfluttar vörur á sama tíma og innlendir framleiðendur eiga þær ekki til hjá sér. Við höfum fundið vel að það er heldur ekki vilji garðyrkjubænda að vörur vanti í verslanir. Þessi breyting fækkar því vonandi þeim tilvikum þar sem gölluð löggjöf veldur beinlínis vöruskorti í verslunum. segir Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri FA á vef félagsins.