Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Segir að börn fái síður aukaverkanir af bóluefnum

Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan
Yfirmaður bólusetninga hjá sóttvarnalækni segir að ákaflega lítil áhætta sé fólgin í því að bólusetja börn á aldrinum 5 til 11 ára. Rannsóknir bendi til þess að börn fái síður aukaverkanir af bóluefnum en fullorðnir.

Byrjað verður að bólusetja börn á aldrinum 5 til 11 ára í næsta mánuði. Bólusett verður í skólum og heilsugæslan heldur utan um framkvæmdina í samstarfi við skólastjórnendur.

Rætt var um málið á opnum fundi velferðarnefndar Alþingis í morgun. Þingmenn spurðu meðal annars út í mögulegar aukaverkanir og rannsóknir á þeim og líka um hvernig framkvæmdin verður.

Fram kom í svari fulltrúa heilsugæslunnar að börn verði ekki bólusett nema með fullu samþykki foreldra eða forsjármanna. Þá kemur til greina að bólusett verði utan skólatíma til að tryggja leynd upplýsinga um bólusetningarstöðu barna. Þannig á að koma í veg fyrir mögulega fordóma og einelti.

Kamilla Sigríður Jósefsdóttir hjá embætti landlæknis og yfirmaður bólusetninga hjá sóttvarnalækni segir að allar rannsóknir bendi til þess að börn fái síður aukaverkanir af bóluefnum. Eftirköst af covid-sýkingu séu mun algengari og hættulegri.

„Nánast allar aukaverkanir, og sérstaklega þessar alvarlegu aukaverkanir, eru algengari eftir covid-sjúkdóminn heldur en eftir bólusetningarnar og það á við um alla aldurshópa líka. Það er ákaflega lítil áhætta fólgin í að bólusetja börn á þessum aldri. Það eru komin fram góð gögn, betri en við höfum oft haft áður þegar við höfum þurft að taka ákvörðun um bólusetningu barna eða fullorðinna í þessu covid-ástandi. Og við erum algjörlega sannfærð um að það sé rétt að bjóða bólusetninguna,“ sagði Kamilla Sigríður á fundi velferðarnefndar í morgun. 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV