Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Kókaínið streymir til Rotterdam

Mynd með færslu
 Mynd: Facebook
Tollverðir í Rotterdam í Hollandi hafa að undanförnu lagt hald á 1,6 tonn af kókaíni sem kom til landsins í vörugámum frá Suður-Ameríku. Söluandvirði efnisins er talið nema hátt í tuttugu milljörðum króna.

Embætti ríkissaksóknara í Haag greindi í dag frá málinu. Fyrsta sendingin kom í bananagámi frá Ekvador. Sú næsta í gámi, fullum af kakóbaunum, sem kom einnig frá Ekvador með viðkomu í Kólumbíu og Antverpen í Belgíu. Loks fannst sú þriðja í þremur íþróttatöskum sem höfðu verið faldar í sementsfarmi sem átti að fara til Portúgals. Samanlögð þyngd kókaínsins er 1,6 tonn sem sérfræðingar ríkissaksóknara telja að smyglararnir hefðu getað selt fyrir 127 milljónir evra eða um 19 milljarða króna.

Rotterdam er mesta hafnarborg Hollands og höfnin þar raunar sú stærsta í Evrópu. Svo virðist sem kókaínsmyglarar noti hana í æ ríkari mæli til að koma efnunum til álfunnar og dreifa þeim síðan til annarra landa. Hollensk tollayfirvöld skýrðu frá því í gær að þau hefðu það sem af er ári lagt hald á 68 tonn af kókaíni. Tollverðir fundu 49 tonn í fyrra.

Í skýrslu evrópulögreglunnar Europol frá því í september segir að hafnir á Íberíuskaga séu ekki lengur aðalsmyglleiðin fyrir kókaín frá Suður-Ameríku heldur sé umferðin farin að beinast til Hollands og Belgíu. Kókaín er sagt vera næstvinsælasta ólöglega fíkniefnið í Mið- og Vestur-Evrópu á eftir kannabisefnum. Talið er að kókaínneytendur í Evrópu hafi verið 4,4 milljónir í fyrra.

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV