Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Fréttamiðlinum Stand News í Hong Kong lokað

29.12.2021 - 12:15
epa09659267 Police officers leave with loaded boxes of documents  during a raid of the pro-democracy media outlet Stand News office in Hong Kong, China, 29 December 2021. Over 200 police officers raided the online media outlet Stand News and arrested at least six people connected to the platform for conspiracy to publish seditious publication, contravening section 9 and 10 of the Crimes Ordinance.  EPA-EFE/MIGUEL CANDELA
Lögreglumenn bera út gögn úr höfuðstöðvum Stand News. Mynd: EPA-EFE
Stjórnendur fréttamiðilsins Stand News í Hong Kong hafa ákveðið að loka honum eftir að sjö fyrrverandi og núverandi starfsmenn hans voru handteknir fyrr í dag. Miðillinn barðist fyrir lýðræðisumbótum í héraðinu.

Tilkynnt var um endalok Stand News á Facebook. Þar sagði að fréttavefur miðilsins yrði hvorki uppfærður né nýjustu tíðindi birt á samfélagsmiðlum. Aðgangi hans yrði fljótlega eytt. Jafnframt kom fram að Patrick Lam, ritstjóri Stand News, hefði sagt upp störfum og að öllu starfsfólkinu yrði sagt upp.

Patrick Lam er einn sjömenninganna sem öryggislögreglan í Hong Kong handtók í dag. Tvö hundruð lögreglumenn tóku þátt í aðgerðunum. Húsleit  var gerð í höfuðstöðvum Stand News og hjá fimm stjórnendum fyrirtækisins. Hald var lagt á ýmis gögn.

Haft er eftir Steve Li, yfirlögregluþjóni öryggislögreglunnar í Hong Kong, að ráðist hafi verið gegn núverandi og fyrrverandi starfsmönnum Stand News þar sem miðillinn hafi dreift hatursáróðri gegn stjórnvöldum í nýlendunni fyrrverandi frá því í júlí 2020 til nóvember í ár, með fréttaflutningi og bloggfærslum. Fullyrt hafi verið að stjórnarandstæðingar hefðu horfið og verið beittir ofbeldi. Þetta væru fullyrðingar án nokkurra sannana.

Frá því að öryggislög voru samþykkt í Hong Kong sumarið 2020 hafa yfirvöld beint spjótum sínum að fjölmiðlum sem barist hafa fyrir lýðræðisumbótum og gegn vaxandi afskiptum stjórnvalda í Peking af málefnum héraðsins. Atlagan gegn Stand News er sögð vera nýjasti kaflinn í þeirri herferð. Aðgerðum öryggislögreglunnar hefur verið mótmælt víða um heim.

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV