Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Fór smitaður á næturklúbb og gæti endað í fangelsi

29.12.2021 - 03:46
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ungur Ástrali gæti átt yfir höfði sér allt að tveggja ára fangelsi og háa fjársekt fyrir að hunsa heilbrigðisreglur. Hann greindist smitaður af COVID-19 en ákvað að bregða sér á næturklúbb í stað þess að fara í sóttkví.

Maðurinn er nítján ára og búsettur í Adelaide höfuðborg Suður-Ástralíuríkis þar sem á aðra milljón manna býr. Borgin er fimmta stærsta borg Ástralíu og meðal annars þekkt fyrir mat, vín, menningu og fagrar strendur.

Maðurinn fékk jákvæða greiningu 17. desember síðastliðinn að því er fram kemur í yfirlýsingu lögregluyfirvalda í borginni. Á annað hundrað gesta og starfsmanna næturklúbbsins sem ungi maðurinn sótti, þurftu að dvelja í einangrun eftir heimsókn hans þangað.

Nú gæti hann átt yfir höfði sér allt að tveggja ára fangelsi og greiðslu 20 þúsund Ástralíudala eða jafnvirði tæplega 1,9 milljóna íslenskra króna sektar. Dómstóll tekur mál mannsins fyrir í febrúar næstkomandi.