Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Stórhríð í Kaliforníu en hitabylgja í Texas

28.12.2021 - 05:26
Spring Street in Nevada City, calif., was socked in with snow and downed tree limbs, on Monday, Dec. 27, 2021. (Elias Funez/The Union via AP)
Frá smábænum Nevada City, eða Snjókomuborg, í Kaliforníu. Hann stóð undir nafni um jólin - eða í það minnsta undir fyrri hluta nafnsins, því íbúar eru aðeins um 3.000 talsins.  Mynd: AP
Stórhríð geisaði á vesturströnd Bandaríkjanna í gær með tilheyrandi ófærð og umferðarhnútum en í Texas hélt fólk jólin hátíðleg í sannkallaðri hitabylgju.

Eins metra jafnfallinn snjór féll á hluta Sierra Nevada-fjallgarðsins á einum sólarhring og bættist ofan á rúma tólf metra sem féllu fyrr í mánuðinum. Þetta er metsnjókoma í desember á þessum slóðum og kemur sér vel fyrir orkuframleiðendur, sem hafa lengi glímt við vatnsskort í miðlunarlónum sínum. Sunnar í ríkinu rigndi hins vegar eins og hellt væri úr fötu, svo mikið að vatn flæddi um götur.

Andrew Schwartz, yfirmaður rannsókna á Snjórannsóknastofu Berkeley-háskóla í Kaliforníu, segir fannfergi og rigningar síðustu daga og vikna hafa komið þægilega á óvart, því enginn hefði búist við votum eða snjóþungum vetri eftir margra ára þurrkatíð. Of snemmt sé þó að lýsa yfir endalokum þurrkatímabilsins, segir Schwartz.

Slitnar rafmagnslínur og umferð úr skorðum

En þótt úrkoman boði gott fyrir raforkuverin til lengri tíma olli fannfergið því að rafmagnslínur slitnuðu og rafmagn fór af þúsundum heimila og fyrirtækja í gær og um jólin. Þá sátu þúsundir ferðalanga fastar í umferðarhnútum vegna bíla sem ýmist festust eða lentu í árekstrum í vetrarfærðinni.

Norðar á vesturströndinni, í Seattle í Washingtonríki, fór bæði bíla- og flugumferð úr skorðum vegna hríðarveðursins og kuldinn var slíkur að borgarstjórinn lýsti yfir neyðarástandi. Þarna á milli, í Oregon-ríki, var líka gefin út veðurviðvörun vegna stórhríðar og kulda.

Hitabylgja í Texas

Á sama tíma og íbúar vesturstrandarinnar örkuðu snjóinn, börðu sér til hita og héldu hvít jól fækkuðu Texasbúar fötum og þerruðu svitann, einkum í ríkinu sunnanverðu, þar sem hitinn fór í 34 gráður í Rio Grande-dalnum á jóladag. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV