Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Sérfræðingar með gosstöðvarnar í gjörgæslu

Mynd með færslu
 Mynd: Matthias Vogt - Volcano Heli
Heldur hefur dregið úr skjálftavirkni á Reykjanesskaga undanfarinn sólarhring. Frá miðnætti hafa mælst um 600 skjálftar í nágrenni við Fagradalsfjall, mun færri en á sama tíma í gær. Sem fyrr eru upptök þeirra flestra vestan við Kleifarvatn, norður af Krýsuvík. Einar Hjörleifsson, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofunni, segir að gos geti jafnvel hafist á næstu dögum.

Hefur einhver breyting orðið á mati ykkar að gos sé yfirvofandi? 

„Nei, út frá greiningu á aflögunarmerkjunum þá sjáum við að kvikan liggur grunnstætt og þegar dregur svona úr skjálftavirkninni teljum við jafnvel að gos gæti hafist á næstu dögum. Við fylgjumst áfram með og erum með þetta í svona hálfgerðri gjörgæslu, “ segir Einar. 

Hversu djúpt er núna niður á kviku undir Fagradalsfjalli?

„Við teljum, út frá þessum aflögunarmerkjum, að það sé núna á rétt rúmlega tveggja kílómetra dýpi. Það er svona okkar mat en svo fáum við ný gögn á morgun, “ segir Einar Hjörleifsson náttúruvársérfræðingur.