Kvika á 2 kílómetra dýpi - svipað mynstur og síðast

Mynd: Kastljós / RÚV
Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar hjá Veðurstofu Íslands, segir ekki vitað nákvæmlega hversu nálægt kvikan er komin yfirborðinu en miðað við nýjustu líkön sé mesta þenslan á tveggja kílómetra dýpi og það megi alveg búast við því að hún færist nær yfirborðinu á næstunni. Þau hafi verið farin að sjá merki um kviku á tveggja kílómetra dýpi þremur vikum fyrir gosið í mars.

Þetta var meðal þess sem kom fram í Kastljósi í kvöld þar sem Kristín fór yfir stöðu mála.

Hún sagði nýjustu gervitunglamyndir sýna að kvikan væri inni í jarðskorpunni í Fagradalsfjalli en ekki einhvers staðar annars staðar. Síðan í september hefðu þau fylgst með kvikunni vera að safnast fyrir undir Fagradalsfjalli á 15 kílómetra dýpi sem síðan hefði fundið sér þessa sömu leið og hún gerði áður. 

Kristín sagði mjög erfitt að spá fyrir um hvar kvikan gæti komið upp. Það væri einmitt vegna þessarar óvissu sem óskynsamlegt væri að ganga um svæðið.  

Hægt er að horfa á innslagið í heild sinni í spilaranum hér að ofan.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV