Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Kjöraðstæður fyrir selveiðar hvítabjarna í vetur

27.12.2021 - 04:51
Mynd með færslu
 Mynd:
Íbúar í nyrstu byggðum Rússlands þurfa að líkindum ekki að hafa jafn miklar áhyggjur af heimsóknum hungraðra hvítabjarna í matarleit í vetur og raunin hefur verið undanfarin ár, að mati sérfræðinga Alþjóðlega náttúruverndarsjóðsins, WWF. Ástæðan er sú að hafísbreiðan í Norður-Íshafinu er vel þétt í vetur og aðstæður til hefðbundinnar mataröflunar hvítabjarna því með ágætum.

Norska fréttastofan NTB hefur eftir Dmitrij Rijabov, sérfræðingi hjá Alþjóðlega náttúruverndarsjóðnum, að allt sé með kyrrum kjörum í norðurbyggðum Rússlands. „Ísinn myndaðist tímanlega á hafinu í ár og ísbirnirnir eru farnir norðureftir til að veiða sel,“ segir Rijabov.

Nokkra undanfarna vetur hafa soltnir hvítabirnir æ oftar leitað sér matar í mannabyggð, svo sem í ruslatunnum, geymsluskúrum og jafnvel inni á heimilum fólks, þar sem hafísinn á Norður-Íshafinu var of gisinn og lélegur til að bera þá, sem er forsenda þess að þeir geti stundað selveiðar að gagni.