Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

18 látin og tugir þúsunda á hrakhólum vegna flóða

27.12.2021 - 02:44
Aerial view of floods caused by heavy rains in the city of Itapetinga, southern region of the state of Bahia, Brazil, Sunday, Dec. 26, 2021. The Bahia state government's press office said heavy rains have caused floods that have killed 18 people and affected more than 30 cities since early November, forcing more than 4,000 from their homes and complicating access to some communities. (AP Photo/Manuella Luana)
Svona var ástandið í bænum Itapetinga í sunnanverðu Bahia-ríki á öðrum degi jóla 2021. Mynd: AP
18 eru látin og yfir 35.000 manns eru í hrakningum vegna flóða í brasilíuríkinu Bahia, þar sem rignt hefur uppstyttulítið um í margar vikur með þeim afleiðingum að ár hafa flætt yfir bakka sína og tveir stíflugarðar gefið sig. Leitar- og björgunarlið staðfesti í gær, á öðrum degi jóla, að átjánda fórnarlamb flóðanna hefði fundist á reki í á í sunnanverðu ríkinu.

Minnst tveggja til viðbótar er saknað og hátt í 300 hafa slasast í hamförunum, samkvæmt almannavörnum í Bahia. Um eða yfir 35.000 manns hafa neyðst til að flýja heimili sín vegna flóðanna og þúsundir þeirra eru enn án húsaskjóls. Áætlað er að hamfarirnar hafi sett líf yfir 430.000 manns úr skorðum með einum eða öðrum hætti.

Neyðarástand í 72 sveitarfélögum og tvær stíflur farnar

Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í 72 sveitarfélögum í Bahia og bráð og mikil hætta steðjar að fólki og mannvirkjum í 58 þeirra. Þúsundum íbúa tveggja bæja á bökkum árinnar Verruga var gert að flýja heimili sín með hraði og koma sér í öruggt skjól fjarri fljótinu eftir að stíflugarður brast ofar í ánni í gær. Önnur stífla í annarri á gaf sig á jóladag og fjölda fólks var bjargað í bátum og þyrlum úr flóðinu sem fylgdi.

Rui Costa, ríkisstjóri Bahia, sagðist í gær aldrei hafa upplifað neitt í líkingu við þessar hamfarir og sagði skelfilegt til þess að hugsa, hversu mörg hús, götur og heilu bæirnir væru á kafi í vatni. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV