Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Snúa heim eftir heræfingar nærri Úkraínu

25.12.2021 - 11:36
epa08971533 A tank of pro-Russian militants of self-proclaimed Donetsk People's Republic (DPR) rides during a military exercise at a shooting range not far from them controlled city of Gorlivka, Ukraine, 28 January 2020. Margarita Simonyan, the Chief Editor of the state-controlled international television network 'Russia Today' called Russia to annex all territory of Donbas during the 'Russian Donbass Forum' in Donetsk today.  EPA-EFE/DAVE MUSTAINE
Rússneskur skriðdreki á æfingu úkraínskra aðskilnaðarsinna, sem hliðhollir eru Rússum. Mynd: EPA-EFE
Fleiri en tíu þúsund rússneskir hermenn eru nú á leið aftur heim á herstöðvar sínar eftir að hafa verið við æfingar nærri landamærum Rússlands og Úkraínu síðustu mánuði. Þetta segir í frétt rússneska Interfax.

Miðillinn hafði eftir rússneska hernum að æfingarnar hafi verið haldnar nærri nokkrum héruðum Úkraínu. Meðal annars í Rostov og Kuban sem og á Krímskaga, sem Rússar innlimuðu árið 2014.

„Samhæfingaræfingu herdeilda er nú lokið. Fleiri en tíu þúsund hermenn halda nú aftur heim á herstöðvar sínar af æfingasvæðinu,“ hafði Interfax eftir rússneska hernum.

Deilur við Vesturlönd

Vera rússneskra hermanna á svæðinu og hernaðaruppbygging hefur valdið miklum deilum við Vesturlönd og segjast Úkraínumenn, Bandaríkjamenn og Evrópusambandsríki óttast að innrás gæti verið yfirvofandi. 

Alls er talið að á milli 60.000 og 90.000 rússneskir hermenn séu nærri landamærunum. Bandaríkjastjórn telur að þeir gætu fljótt orðið allt að 175.000. 

Rússlandsstjórn hafnar ásökunum um að árás sé yfirvöfandi og segist ekki hafa nein áform um innrás í Úkraínu. Þá hefur Vladímír Pútín forseti krafist þess að Atlantshafsbandalagið heiti því að hætta allri útvíkkun bandalagsins til austurs.

Þórgnýr Einar Albertsson