
Ekvador: Bólusetningarskylda fyrir fimm ára og eldri
Um 12,4 milljónir Ekvadora, rúm 77 prósent allra landsmanna yfir fimm ára aldri, eru fullbólusettar. Nær 550.000 hafa greinst með COVID-19 í landinu til þessa og um 33.600 dáið úr sjúkdómnum. Þau ein fá undanþágu frá bólusetningarskyldunni, sem fá það uppáskrifað hjá lækni eða öðrum þar til bærum aðila að fyrir því liggi gildar, heilsufarslegar ástæður.
Samkvæmt Reuters-fréttastofunni hefur yfirlýst markmið ríkisstjórnarinnar verið að minnst 85 prósent þjóðarinnar verði fullbólusett fyrir árslok. Fullyrða stjórnvöld að nægt bóluefni sé til í landinu til að bólusetja alla Ekvadora, sem eru tæplega 18 milljónir talsins.
Í frétt AFP segir að Ekvador sé fyrst ríkja til að innleiða bólusetningarskyldu niður í fimm ára aldur, en skyldubólusetning fyrir fullorðna gildir í Indónesíu, Tadsíkistan, Túrkmenistan, Míkrónesíu og Nýju Kaledóníu.