Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Veitingastaðir fá líka undanþágu

Mynd: Alma Ómarsdóttir/RÚV
 Mynd: Alma Ómarsdóttir/RÚV
Heilbrigðisráðherra hefur veitt veitingastöðum undanþágu frá fjöldatakmörkunum sem eiga að taka gildi á miðnætti. Þeir fá heimild til að taka á móti 50 gestum í hverju rými í stað 20 líkt og kveðið er á um í reglugerðinni og gildir þessi undanþága einungis á morgun, þorláksmessu.

Eigendur hátt í tvö hundruð veitingastaða höfðu farið þess á leit við heilbrigðisráðherra að fá undanþágu frá reglunum, en þær höfðu þegar verið veittar vegna tveggja tónleika sem verða á morgun. Þeir höfðu óskað eftir því að fá að hafa þá opna lengur en til klukkan 21 eins og kveður á um í reglugerðinni sem taka á gildi á miðnætti.

Samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu var ákvörðunin tekin í ljósi þess hversu skammur fyrirvari er á gildistöku reglugerðar um hertar sóttvarnaaðgerðir. 

Í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu segir að rekstraraðilar séu hvattir til þess að gæta áfram ýtrustu sóttvarnaráðstafana, svo sem með greiðu aðgengi að handspritti, tryggja grímunotkun og gæta að eins metra nálægðarmörkunum milli ótengdra aðila.