Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hvítrússneskir stjórnleysingjar í langa fangavist

epa04973155 Belarusian President Alexander Lukashenko talks to media after casting his ballot at a polling station during presidential elections in Minsk, Belarus, 11 October 2015. Belarusian President Alexander Lukashenko, who has led the eastern
 Mynd: EPA
Dómstóll í Hvíta Rússlandi hefur dæmt hóp stjórnleysingja í allt að tveggja áratuga fangelsi. Þeir voru ákærðir fyrir hryðjuverk og ólöglega vopnaeign. Þarlend mannréttindasamtök fullyrða að hátt í þúsund pólítískir fangar og stjórnarndstæðingar sitji í fangelsi.

Fjórmenningarnir voru sakaðir um að hafa kveikt í skrifstofum öryggissveita og lögreglubílum í Gomel-héraði, austanvert í landinu.  Mennirnir voru handteknir í október nærri landamærunum að Úkraínu og hafa síðan setið í fangelsi sem hvítrússneska leyniþjónustan KGB rekur.

Tveir mannanna, þeir Sergei Romanov og Igor Olinevich hlutu tuttugu ára dóm, Dmitry Rezanovich nítján og Dmitry Dubovsky átján ára dóm. Olinevich var dæmdur í átta ára fangelsi fyrir tíu árum fyrir bensínsprengjuárás á stjórnarbyggingar og rússneska sendiráðið í höfuðborginni Minsk.

Hann var látinn laus árið 2015 eftir að honum var veitt sakaruppgjöf. Hvítrússnesku mannréttindasamtökin Viasna segja að hátt í þúsund pólitíska fanga sé að finna í þarlendum fangelsum.

Mikið andóf og mótmæli hafa staðið yfir í landinu frá því að Alexander Lúkasjenka var endurkjörinn forseti sumarið 2020. Stjórnarandstæðingar með Svetlönu Tíkanovskaju í broddi fylkingar staðhæfa að rangt hafi verið haft við í kosningunum. 

Hún lýsti yfir sigri í kosningunum en yfirgaf loks landið af ótta við handtöku. Eiginmaður hennar Sergei, sem var áður helsti leiðtogi stjórnarandstöðunnar, var dæmdur í átján ára fangelsi fyrir rúmri viku. Hann var sakaður um skipulagningu óeirða og andóf gegn Lúkasjenka forseta.