
70 prósenta verðbólga á Kúbu
„Við munum augljóslega enda með yfir 70 prósenta ársverðbólgu,“ sagði Gil í ræðu á kúbverska þinginu í gær. „Það er auðvitað ekki hægt að líkja þessum 44 prósentum frá því í janúar við neitt það sem gerist í öðrum löndum, því þetta var með ráðum gert,“ sagði ráðherrann. „Hvers lags verðbólga er þetta? Stjarnfræðileg, já, en laun hækkuðu líka.“
Í frétt AFP segir að lágmarks mánaðarlaun á Kúbu hafi verið jafnvirði um 11.300 íslenskra króna í janúar, en þau séu nær tvöfalt hærri nú í lok árs, eða jafnvirði 21.300 króna. Hluta verðbólgunnar má svo rekja til utanaðkomandi þátta, einkum áhrifa kórónuveirufaraldursins og viðskiptaþvingana Bandaríkjastjórnar, segir Gil.
Ráðherra reiknar með að landsframleiðslan aukist um fjögur prósentustig á komandi ári, einkum vegna fjölgunar í hópi erlends ferðafólks. Í fyrra jókst landsframleiðslan um tvö af hundraði, en stjórnvöld höfðu reiknað með sex prósenta vexti. Þetta skrifast einkum á viðskiptaþvinganir Bandaríkjanna, að sögn Gils.