
Varar við hættu á orkuskorti verði ekkert að gert
Þetta er meðal þess sem fram kemur í aðsendri grein Harðar sem birtist í Morgunblaðinu í dag.
Hann segir brýnt að teknar verði ákvarðanir um að auka fjárfestingar í innviðum, styrkingu flutningskerfisins og aukinni orkuþörf. Þótt einhugur sé um að vanda beri til verka þurfi líka að taka ákvarðanir.
Greiningar Orkustofnunar og Samorku leiði í ljós aukna þörf fyrir orku í náinni framtíð og því þurfi að tryggja orkuöryggi. Eins segir Hörður brýnt að skýrt sé hverjir beri ábyrgð á að nægileg orka sé í boði fyrir heimili og smærri fyrirtæki, þannig sé það ekki nú.
Hann áréttar einnig að bygging virkjana taki langan tíma, Hvammsvirkjun sem lengst er komin í undirbúningi gæti í fyrsta lagi orðið tilbúin 2026 til 2027.
Hörður bendir á að ekki sé óeðlilegt að sú staða komi upp í núverandi umhverfi að skerða þurfi afhendingu orku til þeirra fyrirtækja sem greiða lágt orkuverð gegn þeim skilyrðum, ef þrengir að í vatnsbúskap Landsvirkjunar. Raforkukerfið sé lokað og að stærstum hluta byggt upp af vatnsafsvirkjunum.