Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Þingmenn muni gera athugasemdir við hertar aðgerðir

Mynd með færslu
 Mynd: Haakon Broder Lund - .
Verði tillögur sóttvarnalæknis samþykktar á ríkisstjórnarfundi í dag munu þingmenn Sjálfstæðisflokksins gera athugasemdir við það. Þetta segir Vilhjálmur Árnason þingmaður flokksins. Hann segir að tími sé til kominn að gera langtímaáætlanir í sóttvörnum, standa við fullyrðingar um að lifa með veirunni og að fleiri komi að borðinu við ákvarðanatöku.

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra gerir grein fyrir þeim sóttvarnaaðgerðum sem verða í gildi yfir hátíðarnar að loknum ríkisstjórnarfundi í dag. Núgildandi reglugerð rennur út á morgun.

Sóttvarnalæknir sendi ráðherra minnisblað í gær og eins og fram kom í fréttum í gær, þá verða sóttvarnaaðgerðir hertar verulega verði tillögur hans samþykktar. 

Vilhjálmur segist fullur efasemda. „Við erum búin að vera tvö ár í faraldrinum og við erum að taka svona harðar aðgerðir án þess að, eins og mér finnst allavegana, hafa nógu miklar upplýsingar um hvert er markmið aðgerðanna og rökin fyrir hverri aðgerð fyrir sig,“ segir Vilhjálmur.,

Kallar eftir meiri upplýsingum og rökstuðningi

Hann segir að með þessu sé hann ekki að leggja til að engar sóttvarnaaðgerðir verði í gildi. „En þær þurfa þá að allavegana að fela í sér einhverjar upplýsingar til að rökstyðja aðgerðirnar; hvert er markmiðið með þeim og hvert er planið fram á við.“

Vilhjálmur bendir á að nú hafi faraldurinn staðið yfir í tvö ár og talsvert sé vitað um hann. Ísland sé með eitt hæsta kórónuveirubólusetningarhlutfall sem þekkist og í  því ljósi ætti fólk að geta gætt eigin sóttvarna.

En undanfarið hafa aðgerðir verið slakari og við höfum tekið ábyrgð. Engu að síður fjölgar smitum mikið og sóttvarnalæknir talar um veldisvöxt. Erum við að taka nógu mikla ábyrgð? „Það er spurning hvað okkur er leyft að taka mikla ábyrgð sjálf,“ segir Vilhjálmur og segir að þegar harðar almennar takmarkanir séu í gangi gæti það veitt falskt öryggi. „Þú gerir þá allt nema það sem er bannað,“ segir hann. „Maður finnur allt í kringum sig þegar smitin eru orðin svona mörg, þá er fólk að passa sig mun betur.“

Er þetta skoðun hjá fleirum innan þingflokks Sjálfstæðisflokksins? „Já, það er rík skoðun innan þingflokks Sjálfstæðisflokksins að þegar þú ert með svona víðtækar frelsisskerðingar eftir svona langan tíma og það er ekki komið eitthvað plan eða markmið um hvernig við ætlum að stefna að því að lifa með veirunni - að það þurfi að koma eitthvað meira til til þess að rökstyðja svona harðar takmarkanir.“

Fari svo að tillögur sóttvarnalæknis verði samþykktar á ríkisstjórnarfundi í dag, munið þið gera athugasemd við það? „Ég er viss um að allavegana einstaka þingmenn muni gera athugasemd við það. Þá er kjarninn í því að við hefðum viljað að Alþingi hefði komið frekar að málum.“

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir