Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Síðasti hnúturinn í Landsréttarmálinu leystur

21.12.2021 - 14:47
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Jón Finnbjörnsson hefur fengið lausn frá embætti landsréttardómara frá og með 22. september þegar hann verður 65 ára. Staða hans verður auglýst laus til umsóknar í byrjun árs. Jóni hefur ekki verið kleift að sinna dómstörfum frá því að dómur Mannréttindadómstóls Evrópu í Landsréttarmálinu féll. Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra, kynnti þetta á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun.

Jón var einn þeirra fjögurra dómara sem Sigríður Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, skipaði og tók fram yfir aðra umsækjendur sem dómnefnd mat hæfari.

Mannréttindadómstóll Evrópu komst að þeirri niðurstöðu í mars fyrir tveimur árum að ólöglega hefði verið skipað í dómstólinn. Sú niðurstaða var staðfest af yfirdeild MDE í desember á síðasta ári.

Enginn þeirra fjögurra dómara gat dæmt við dómstólinn eftir þessa niðurstöðu, þrjú þeirra sóttu um ný embætti og fengu en ekki Jón.

Hann sótti um stöðu landsréttardómara þegar Ragnheiður Bragadóttir var skipuð öðru sinni og upphafleg staða hennar losnaði. Símon Sigvaldason, dómstjóri við Héraðsdóm Reykjavíkur, var hins vegar metinn hæfastur.

Ákvörðunin um að veita Jóni lausn frá störfum styðst við 52. grein laga um dómstóla. Þar er meðal annars að finna heimild fyrir því að veita dómara lausn frá embætti án óskar hans ef hann er orðinn 65 ára. Hann fær engu að síður eftirlaun eins og hann hefði gegnt embættinu til 70 ára aldurs.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV