Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Segja áhættu að hafa leikskóla opna milli jóla og nýárs

Mynd með færslu
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Stjórnir Félags leikskólakennara og Félags stjórnenda leikskóla  segja útilokað að hægt sé að gæta að sóttvörnum á milli barna og kennara. Það séu vonbrigði að stjórnvöld hafi ekki látið loka leikskólum milli jóla og nýárs, verið sé að taka áhættu í sóttvörnum.

Í ályktun frá stjórnum félaganna segir að það séu vonbrigði að í nýjum sóttvarnareglum, sem taka eiga gildi á morgun, sé ekki kveðið á um að leikskólum verði lokað milli jóla og nýárs til að bregðast við fjölgun smita.

„Við komum áhyggjum okkar skýrt til skila með góðum fyrirvara til yfirvalda, en það var ekki hlustað á það,“ segir Haraldur Freyr Gíslason formaður Félags leikskólakennara. „Við fullyrðum það fullum fetum að það eru engin haldbær sóttvarnalög fyrir því að loka ekki leikskólum. Öll börn á leikskólastiginu eru óbólusett.“

Haraldur segir að hlutfallslega sé lítill munur á fjölda grunnskólabarna og leikskólabarna sem nú eru með virkt smit.  Meiri nánd sé á milli barna og starfsmanna á leikskólastiginu en á öðrum skólastigum, verið sé að taka áhættu í sóttvörnum með því að hafa leikskólana opna.

„Það má alveg minna á það að það var sambærileg staða fyrir dymbilvikuna á þessu ári. Leikskólunum var samt haldið opnum alla daga fram að lögbundnum frídögum. Sú ákvörðun leiddi til að upp kom eitt stærsta hópsmit í íslensku samfélagi í leikskólanum Jörfa. Þannig að við höfum alveg vítin til að varast.“

Nú eru 137 börn fimm ára og yngri í einangrun með virkt kórónuveirusmit samkvæmt covid.is, en það er um 7% allra virkra smita. Í ályktuninni eru sveitarfélög hvött til að loka leikskólum milli jóla og nýárs og foreldrar hvattir til að halda börnum sínum heima. 

„Ég vona að sveitarfélögin taki vel í það og verði við þessum tilmælum,“ segir Haraldur.