Ekki frekari bikblæðingar

21.12.2021 - 16:25
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Óðinn Svan Óðinsson
Á föstudaginn varaði Vegagerðin við bikblæðingum á Þverárfjalli. Ástandið hefur lagast en starfsmenn Vegagerðarinnar hafa mikið eftirlit með vegum á þessum árstíma.

Búið á meðan það er frost

Heimir Gunnarsson, verkstjóri hjá Vegagerðinni, segir blæðinguna hafa verið mjög staðbundna við Þverárfjall. „Þetta kom síðan örlítið hér austur við Fnjóskárbrúna í Ljósavatnsskarði. Eigið þið von á að þetta sé búið í bili? Þetta er búið á meðan það er frost. Það er aldrei að vita hvað gerist þegar það hlánar. Þá gæti þetta sprottið fram.“

Hann segir veðurspána framundan ekki gefa til kynna hláku. Starfsmenn Vegargerðarinnar séu þó við öllu búnir.

„Við verðum bara á tánum. Við erum á ferðinni mikið núna þessa dagana. Þetta eru dagarnir sem við þurfum að vera vel vakandi að það sé ekki hálka og vesen á vegunum. Við viljum að allir komist í jólaveisluna þó það séu komnar takmarkanir,“ segir Heimir.

Anna Þorbjörg Jónasdóttir