Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Ríkið hafi gert mistök við rannsókn ofbeldisbrota

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist/RÚV
Upplýsingafulltrúi dómsmálaráðuneytisins segir að mistök hafi verið gerð við rannsókn á ofbeldi í nánu sambandi. Málið er eitt af þeim ofbeldismálum sem níu konur kærðu til Mannréttindadómstóls Evrópu á árinu, eftir að málin voru látin niður falla í íslensku réttarkerfi. Frá þessu greinir CNN í nýrri umfjöllun um kynbundið ofbeldi á Íslandi.

María Árnadóttir var ein þeirra níu kvenna sem lögðu fram kærur til MDE í mars. Þær eiga það sameiginlegt að telja íslenska réttarkerfið hafa brugðist í meðferð mála þeirra, þegar þær kærðu ofbeldisbrot, nauðganir og áreitni til lögreglu. MDE krafði svo ríkið frekari skýringa á niðurfellingu fjögurra mála.

María kærði ofbeldi í nánu sambandi og lýsir í viðtali við CNN hvernig traust hennar til íslenska réttarkerfisins hafi brostið í ferlinu. Mörgum mánuðum eftir ofbeldið hafi hún loks talað í sig kjark og kært til lögreglunnar.

Vitni, áverkar og sms

Þá hafi hún komið með myndir af áverkunum, lista af fólki sem hafði orðið vitni að ofbeldinu, hótanir frá ákærða í sms-skilaboðum og önnur sönnunargögn. Maríu var sagt málið hefði verið fellt niður. Hún greinir CNN hins vegar frá því að þegar dómsmálayfirvöld fóru yfir málið, hafi komið í ljós að lögregla tók ekki skýrslu af hinum ákærða á tilsettum tíma, því fyrndist málið hjá lögreglu.

Hún sagði sögu sína á baráttufundi á alþjóðlegum baráttudegi kvenna í Reykjavík. Hér er hluti af hennar frásögn frá fundinum:

„Ég kærði ofbeldi í nánu sambandi til lögreglu árið 2017, sem ég varð fyrir árið 2016, tvær líkamsárásir og hótun. Við tók margra mánaða bið, þar sem ég fékk nánast engar upplýsingar um gang málsins sem var verulega streituvaldandi fyrir mig.

Ég bað rannsakanda m.a. að staðfesta hvenær fyrningarfrestur myndi rofna í málinu, en fékk ekkert svar. Sumarið 2018, rúmlega sjö mánuðum eftir kæru, fékk ég vitneskju um að rannsókn væri lokið í máli mínu. Ég vissi að það gæti ekki staðist, því á þeim tíma hafði hvorki verið talað við bein eða óbein vitni í máli,“ sagði María Árnadóttir á baráttufundi í Reykjavík 8. mars.

Mistök - en ekki alvarleg

Í svari við fyrirspurn frá fréttastofu CNN gaf upplýsingafulltrúi dómsmálaráðuneytis þetta svar varðandi mál Maríu:

„Niðurstaða okkar leiddi í ljós að ákveðin mistök voru gerð við rannsókn máls Maríu Árnadóttur, það er álit ríkisins að mistökin nái ekki lágmarks skilyrðum um alvarlega misbresti“ og er þá vísað til skilyrða líkt og hjá MDE.

 

Konur kæra ríkið í „jafnréttisparadísinni“ Íslandi

Rauði þráðurinn í umfjöllun CNN er að þrátt fyrir að Ísland sé iðulega í toppsætum á lista sem meti jafnrétti kynjanna, þá sýni ný rannsókn á áföllum kvenna sláandi tölur um ofbeldi og áreitni.

Steinunn Guðjónsdóttir, talskona Stígamóta, veitti CNN viðtal þar sem hún lýsir viðmóti íslenska réttarkerfisins í kynferðisbrotamálum. „Réttarkerfið lítur á nauðganir sem mjög, mjög, mjög alvarlegan glæp, með tilliti til refsinga, en málaflokkurinn fær hvorki mannafla né athygli. Þegar hér eru framin morð - sem gerist örsjaldan - er allur tiltækur mannskapur lögreglunnar sem kemur að rannsókninni og hún er í algerum forgangi. Það er augljóslega ekki veruleikinn með tilliti til nauðgana“.