Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Mótmælir meðferð á Assange við breska sendiráðið

20.12.2021 - 15:33
Mynd með færslu
 Mynd:
Ögmundur Jónasson, fyrrverandi ráðherra og þingmaður Vinstri grænna, afhenti breska sendiráðinu bréf í hádeginu í dag. Í bréfinu krefst hann þess að Julian Assange, stofnandi WikiLeaks, verði látinn laus og fallið verði frá áformum um að framselja hann til Bandaríkjanna. Ögmundur hyggst mótmæla aftur við sendiráðið á hádegi á morgun og á miðvikudag.

Ögmundur greinir sjálfur frá þessu á bloggsíðu sinni. 

Í bréfinu lýsir Ögmundur áhyggjum sínum af örlögum Assange, sem situr í Belmarsh-fangelsinu í Bretlandi. Áfrýjunardómstóll í Lundúnum komst að þeirri niðurstöðu fyrr í mánuðinum að framselja skyldi Assange til Bandaríkjanna.

Sjá einnig: Bretum ber að framselja Julian Assange

Ögmundur segir að í störfum sínum sem dómsmálaráðherra, 2011-2013 hafi hann orðið vitni að aðgerðum bandarískra stjórnvalda til að varpa sök á stofnanda WikiLeaks. Þær hafi einungis verið pólitískar og ekki snúist um réttlæti heldur verið aðferð til að bæla niður gagnrýna blaðamennsku. 

Beiðni Ögmundar, sem einnig kemur fram á mótmælaskilti hans, er eftirfarandi: Hættið ofsóknum á frelsið, látið Julian Assange lausan.