Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Metfjöldi smita í gær: „Eigum eftir að sjá hærri tölur“

20.12.2021 - 11:22
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Metfjöldi kórónuveirusmita greindust innanlands í gær, en þau voru 220 og hafa aldrei verið fleiri frá upphafi faraldurs. Þetta staðfestir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir við fréttastofu.

Að auki greindust átján smit á landamærunum.

„Þetta er metdagur, það hafa aldrei fleiri greinst á einum degi. Við eigum eftir að sjá hærri tölur á næstunni myndi ég halda. Þetta er bæði delta-afbrigðið og omíkrom-afbrigðið sem er á mikilli uppleið,“ segir Þórólfur.

Sjötugur karlmaður lést á Landspítalanum á laugardag vegna covid-19. Ellefu sjúklingar eru nú þar inniliggjandi vegna COVID-19, tveir eru á gjörgæslu og annar þeirra í öndunarvél. 

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra fékk í morgun í hendurnar nýtt minnisblað frá sóttvarnalækni. Tilkynnt verður um nýjar sóttvarnaráðstafanir eftir ríkisstjórnarfund á morgun, en núgildandi reglugerð rennur út á miðvikudag.

Fréttin hefur verið uppfærð.