Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Boris aftur í bobba vegna samkvæma

Britain's Prime Minster Boris Johnson (L) departs his official residence at 10 Downing Street to attend Prime Ministers Questions at the Houses of Parliament in London, Britain, 10 February 2021. EPA-EFE/NEIL HALL
 Mynd: NEIL HALL - EPA
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, er enn og aftur kominn í vandræði vegna meintra brota á sóttvarnarreglum. Bresk dagblöð birtu í morgun mynd sem sýnir garðveislu í Downingstræti 10 frá þeim tíma sem samkomutakmarkanir voru hvað harðastar.

Johnson hefur verið undir miklum þrýstingi eftir að upp komst að starfslið hans hafði efnt til vinnustaðafagnaðar fyrir síðustu jól, þrátt fyrir strangar samkomutakmarkanir. Í dag  birtust svo myndir úr bakgarði Downingsstrætis 10 sem tekin var í maí í fyrra. Myndin sýnir Boris, eiginkonu hans og 17 aðra úr starfsliði hans í bakgarði bústaðarins og er boðið upp á vín og osta. Á þessum tíma voru strangar samkomutakmarkanir í gildi.

Talsmaður forsætisráðherrans segir að um vinnufund hafi verið að ræða og að slíkir útifundir hafi verið haldnir reglulega yfir sumartímann.

Omíkron-afbrigðið dreifist nú hratt um Bretland og greinist metfjöldi smita dag eftir dag. Bresk stjórnvöld hafa fram til þessa ekki viljað koma á hörðum samkomutakmörkunum en heilbrigðisráðherrann Sajid Javid hefur þó sagt að nýjar reglur kunni að taka gildi fyrir jól. Vísindamenn hafa hvatt stjórnvöld til að grípa til aðgerða en heimildir Telegraph herma að innan ríkisstjórnarinnar sé töluverð andstaða við hertar aðgerðir.