
Á annað hundrað særðist í mótmælum í Súdan
Tilgangur útifundanna var að minnast þess að nákvæmlega þrjú ár eru liðin frá því að einvaldurinn Omar al-Bashir var hrakinn frá völdum.
Eins lýstu skipuleggjendur yfir áhyggjum vegna framvindu lýðræðislegra stjórnarskipta í landinu og vilja mótmæla harðræði Abdel Fattah al-Burhan yfirhershöfðingja og forsprakka valdaránsins 25. október síðastliðinn.
Andófsmenn eru sömuleiðis afar mótfallnir samkomulagi því sem borgaralegi forsætisráðherrann Amdalla Hamdok gerði við herinn í lok nóvember meðan hann sat enn í stofufangelsi.
Hann og aðrir borgarlegir ráðherrar og embættismenn voru hnepptir í varðhald í kjölfar valdaránsins í október en það olli hörðum viðbrögðum alþjóðasamfélagsins jafnt sem heimamanna.
Tafarlausrar frelsunar þeirra var krafist en minnst 45 létu lífið í blóðugum mótmælum víða um land eftir að herinn tók völdin. Hamdok tók við forsætisráðherraembætti að nýju en andófsmenn segja al-Buhran nýta samkomulagið við hann sem skálkaskjól.