Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Á annað hundrað særðist í mótmælum í Súdan

epa09650580 Sudanese security forces fire tear gas as protestors clash with them during protest in front of the main door of the Republican Palace in the capital Khartoum, Sudan, 19 December 2021. Tens of thousands of protesters marched during a demonstration marking the third anniversary of the start of mass demonstrations that led to the ousting of the dictator al-Bashir.  EPA-EFE/STRINGER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Tugir þúsunda tóku þátt í mótmælum í Khartoum höfuðborg Súdans í dag. Öryggissveitir skutu táragasi að mannfjöldanum sem safnaðist saman í miðborginni og talið er að 123 hafi særst meðan á mótmælunum stóð.

Tilgangur útifundanna var að minnast þess að nákvæmlega þrjú ár eru liðin frá því að einvaldurinn Omar al-Bashir var hrakinn frá völdum.

Eins lýstu skipuleggjendur yfir áhyggjum vegna framvindu lýðræðislegra stjórnarskipta í landinu og vilja mótmæla harðræði Abdel Fattah al-Burhan yfirhershöfðingja og forsprakka valdaránsins 25. október síðastliðinn.

Andófsmenn eru sömuleiðis afar mótfallnir samkomulagi því sem borgaralegi forsætisráðherrann Amdalla Hamdok gerði við herinn í lok nóvember meðan hann sat enn í stofufangelsi.

Hann og aðrir borgarlegir ráðherrar og embættismenn voru hnepptir í varðhald í kjölfar valdaránsins í október en það olli hörðum viðbrögðum alþjóðasamfélagsins jafnt sem heimamanna.

Tafarlausrar frelsunar þeirra var krafist en minnst 45 létu lífið í blóðugum mótmælum víða um land eftir að herinn tók völdin. Hamdok tók við forsætisráðherraembætti að nýju en andófsmenn segja al-Buhran nýta samkomulagið við hann sem skálkaskjól.