Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Þórólfur: Tillögur munu taka mið af ástandinu

Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Kórónuveiran er í veldisvexti, álagið á smitrakningateymi Almannavarna hefur aldrei verið jafn mikið og farið er að huga að ráðstöfunum á veirufræðideild Landspítala. Sóttvarnalæknir vinnur að tillögum til heilbrigðisráðherra og segir að þær muni taka mið af ástandinu.

Undanfarna viku hafa samtals greinst hátt í 1.300 kórónuveirusmit innanlands og á landamærunum. Um 160 hafa greinst með omíkron afbrigði veirunnar.

„Við erum að sjá veldisvöxt núna upp. Við erum að sjá omíkron afbrigðið greinast hjá æ fleiri,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.

Sjá einnig: Veldisvöxtur og met slegið í sjö daga nýgengi

Þegar smitum fjölgar, eykst álagið víða. Meðal annars á Veirufræðideild Landspítala en þar eru greind öll PCR-sýni sem tekin eru hér á landi og afkastagetan er 4 til 5.000 sýni á dag. „Ef það fer upp fyrir 5.000 þá þurfum við að gera einhverjar ráðstafanir því við getum ekki haldið út þannig lengi,“ segir Karl. G. Kristinsson yfirlæknir á sýkla- og veirufræðideild Landspítala.

Hvaða ráðstafanir gætu það verið? „Kannski fjölga starfsmönnum, breyttar reglur um sýnatökur.
Hvernig hefur þetta verið undanfarna daga? „Þetta hafa verið svona 3-4.000 sýni oftast. En það hefur farið upp í 5.000.“

Búa sig undir áframhaldandi álag

„Álagið er núna í algjöru hámarki frá því sem við höfum séð áður,“ segir Jóhann Björn Skúlason, yfirmaður smitrakningateymis almannavarna. „Við erum að búa okkur undir áframhaldandi álag og erum að reyna að stækka starfsemina hjá okkur og halda í við þetta.“

Af þeim 211 sem greindust með covid-19 í gær var meirihlutinn utan sóttkvíar, eða 135.  Jóhann segir að það flæki vinnu teymisins hversu hátt hlutfall þetta sé. Hann segir engin stór hópsmit í gangi.

„Núna virðist þetta vera dálitið mikið dreift; fólk veit ekki hvaðan það hefur smitast. Veiran smitast frá manni til manns og það sem við þurfum á að halda núna er að allir hægi á sér eitthvað til að geta haldið þessu eitthvað niðri.“

En það eru að koma jól.... „Þetta er línudans sem við erum í, til að njóta jólanna og þá er til margs unnið með þessu.“

Taka verður tillit til stöðunnar

Þórólfur vinnur nú að nýju minnisblaði til heilbrigðisráðherra. Spurður hvort þar muni verða lagðar til hertar aðgerðir í ljósi stöðunnar svarar hann: „Það verður bara að koma í ljós eins og áður. Ég er ekkert að tala um það fyrirfram og tel fyllstu ástæðu til að stjórnvöld og ráðherra fái að fjalla um það og skoða það áður en það verður farið að gera það opinbert. En auðvitað verður að taka tillit til stöðunnar og ég reyni að gera það faglega með tilliti til þeirrar þróunar sem virðist blasa við. Þannig að ég reyni að taka mið af því.“

Fyndist þér koma til greina að ráða fólki frá að fara á fjölmennar samkomur núna fyrir jólin? „Það gæti alveg komið til greina eins og annað sem við erum að gera og það verður bara að koma í ljós í þessum aðgerðum sem þurfa að taka gildi 22. [desember] eða fyrr - allt eftir því hvernig stjórnvöldum líst á stöðuna.“