Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Omíkron hægir á endurkomu starfsmanna á vinnustað

Götuskilti á Wall Street í New York.
 Mynd: Freephotosbank
Bandarísk stórfyrirtæki neyðast til að endurmeta áætlanir sínar um að starfsfólk snúi aftur á vinnustöðvar sínar í ljósi útbreiðslu Omíkron-afbrigðis kórónuveirunnar.

Eins telja stjórnendur fyrirtækjanna sig þurfa að herða reglur varðandi grímunotkun og auka bólusetningarkröfur. Nýleg könnun leiðir í ljós að 57% bandarískra vinnuveitenda krefjast þess að starfsfólk sé bólusett eða íhuga að setja slíkar kröfur.

Nokkur skref höfðu verið stigin átt til þess að færa vinnustaði aftur til þess forms sem var áður en faraldurinn skall á þegar Omíkron-afbrigðið skaut upp kollinum.

Ágreiningur um lögmæti skyldubólusetningaráætlunar Bidens Bandaríkjaforseta fyrir stærri fyrirtæki varð til þess að stjórnendur þeirra margra tóku upp sínar eigin reglur.

Tæknirisinn Google hefur sett sérlega ósveigjanlegar reglur og hótað starfsfólki launamissi eða uppsögn tilkynni þeir ekki um bólusetningarstöðu sína fyrir ákveðinn tíma.

Mörg stórfyrirtæki hafa gripið til þess bragðs leyfa aðeins bólusettum að mæta á vinnustað eða hvetja allt starfsfólk sem það getur til að vinna heiman frá sér.