Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Vara Írani við að styttist í endalok samningaviðræðna

epa09646558 International Atomic Energy Agency (IAEA) Director General Rafael Mariano Grossi holds a press conference at the IAEA headquarters of the UN seat in Vienna, Austria, 17 December 2021. The IAEA director general commented on the developments related to the IAEA's monitoring and verification work in the Islamic Republic of Iran.  EPA-EFE/MAX BRUCKER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Fulltrúar þeirra vestrænu ríkja sem sitja að samningaborði í Vínarborg um kjarnorkusamning við Írani segja nokkuð hafa þokast í samkomulagsátt undanfarinn sólarhring. Jafnframt segja þeir styttast í endalok viðræðna bregðist Íranir ekki við.

Staðan sé þó svipuð og hún var í júní þegar Íranir fóru fram á að hlé yrði gert á viðræðum í kjölfar þess að harðlínumaðurinn Ebrahim Raisi var kjörinn forseti.

Það voru því mikil vonbrigði þegar Íranir báðu að nýju um hlé á viðræðunum sem hófust í lok nóvember.

Markmið viðræðnanna er að koma kjarnorkusamninginum sem gerður var 2015 í gagnið að nýju en Bandaríkjamenn drógu sig einhliða úr honum 2018 í forsetatíð Donalds Trump og innleiddu harðar refsiaðgerðir að nýju.

Í sameiginlegri yfirlýsingu Breta, Frakka og Þjóðverja segir að nú styttist óðum í endalok viðræðna. Uggur vestrænna ríkja beinist að því að Íranir hafi þróað kjarnorkuáætlun sína svo mjög að ákvæði samkomulagsins reynist úrelt.

Enrique Mora, aðalsamningamaður Evrópusambandsins, álítur brýnt að áfram verði haldið fyrir árslok. Jake Sullival þjóðaröryggisráðgjafi Joe Biden Bandaríkjaforseta segir að nú sé sopið seyðið af því að samningnum var sagt upp en tekur undir að hænuskref hafi verið stigin í rétta átt. 

Samningurinn kveður á um að Íranar hætti að auðga úran, veiti eftirlitsmönnum Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar aðgang að kjarnorkuverum sínum og annað sem miðar að því að tryggja að þeir geti ekki komið sér upp kjarnavopnum.

Á móti skulu Vesturveldin aflétta olíusölubanni og öðrum refsiaðgerðum gegn Íran. Framundan er að samningsaðilar fallist á grundvallaratriði áður en farið verður að ræða ítarlegri þætti samkomulagsins.