Mynd: EPA - RÚV

Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.
Strangar takmarkanir í Hollandi yfir hátíðarnar
18.12.2021 - 20:45
Yfirvöld í Hollandi hafa kynnt nýja reglugerð um sóttvarnaraðgerðir sem tekur gildi á sunnudag og verður í gildi yfir hátíðarnar. Þá verður meirihluta verslana lokað í landinu, ásamt krám, líkamsræktarstöðvum og fleiri fjölförnum stöðum. Samkvæmt reglunum verður aðeins leyfilegt að bjóða tveimur gestum, eldri en 13 ára, inn á heimili sitt, en fjórir gestir verða leyfðir á hátíðisdögum. Skólar í landinu verða lokaðir til 9. janúar.
Breska ríkisútvarpið hefur eftir Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, að það hafi verið óumflýjanlegt að grípa til hertra aðgerða vegna hraðrar útbreiðslu omíkron-afbrigðisins.
Hollendingar fylgja fordæmi annarra Evrópuríkja, sem hver af öðru hafa kynnt hertar sóttvarnaraðgerðir vegna omíkron-afbrigðis kórónuveirunnar. Reglur hollenskra yfirvalda eru þó nokkuð strangari en hafa verið kynntar í nágrannaríkjum þeirra.
- Sjá einnig: Segir omíkron fara um Evrópu á ljóshraða
Hollensk yfirvöld hafa biðlað til almennings að halda sig eins mikið heima og kostur er.