Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

„Ég hlakka mikið til að færa þjóðinni þetta“

Mynd: Eurovision / Youtube

„Ég hlakka mikið til að færa þjóðinni þetta“

18.12.2021 - 12:59

Höfundar

Á sunnudag gefst tækifæri til að taka fram snakkið, ídýfuna og glimmerið því þá verður sýnt frá árlegri og æsispennandi Eurovision-keppni unga fólksins á RÚV. Felix Bergsson verður þulur keppninnar og hann telur Rússana líklegasta til sigurs.

Eurovision unga fólksins er árleg keppni sem hóf göngu sína árið 2003 og nýtur síaukinna vinsælda í Evrópu. Keppendur eru allir yngri en sextán ára og alveg niður í sjö ára gamlir. Ísland hefur aldrei tekið þátt en Felix Bergsson, sem er þulur keppninnar á sunnudag í fyrsta sinn sem hún er sýnd á Íslandi, bindur vonir við að það breytist á næstu árum. „Ég ætla að vera þulur og segja fólki frá því sem er að gerast,“ segir Felix í samtali við Morgunútvarpið á Rás 2. „Þetta verður í fyrsta skipti sem við sendum Eurovision unga fólksins út og erum að skoða hvort okkur langi á komandi árum jafnvel að taka þátt.“

Frakkar báru sigur úr bítum á síðasta ári svo keppnin er haldin í París og nítján þjóðir taka þátt. „Það var ákveðið að gera þetta rétt fyrir jólin, Eiffel-turninn ábernadi í sviðsmyndinni og getur orðið að jólatré og eldflaug,“ segir Felix. „Þetta er rosalega flott hönnun og æðislega flott sjó. Ég hlakka mikið til að færa þjóðinni þetta.“

Felix segir að Rússar séu sigurstranglegir en Pólverjar og Frakkar muni líklega veita þeim mikla samkeppni. „Svo eru fleiri lönd með æðisleg lög, Georgía er til dæmis með mjög skemmtilegt diskólag. Það er fullt af flottri músík,“ segir Felix. „En það má til dæmis ekki veðja á þessa keppni sem þýðir að maður veit ekkert hvernig þetta endar.“

Eurovision unga fólksins 2021 er á dagskrá á RÚV á sunnudag klukkan 19:45.