Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Danmörk: Auknar greiðslur til fyrirtækja í vanda

Mynd með færslu
Kristjánsborgarhöll, þar sem danska þingið kemur saman til funda. Mynd: Shutterstock
Samkomulag náðist á danska þinginu í kvöld um að hækka greiðslur til þeirra fyrirtækja sem standa höllum fæti vegna kórónuveirufaraldursins. Hið sama á við um menningargeirann og skóla. Í gær tilkynnti Mette Frederiksen forsætisráðherra um verulega hertar sóttvarnarráðstafanir í landinu.

Danska ríkisútvarpið greinir frá þessu á vef sínum samkvæmt tilkynningum frá menningarmálaráðuneyti og viðskipta- og iðnaðarráðuneytinu.

Samkomulagið felur meðal annars í sér að eigendur þeirra fyrirtækja sem neyðast til að loka vegna hertra ráðstafana geta sótt um bætur fyrir fastan kostnað, veltutap og vegna launagreiðslna til starfsfólks.

Auk þess eru tíu milljónir danskra króna, tæpra 200 milljóna íslenskra króna, settar í svokallaðan desemberpott sem á að jafna árstíðabundinn kostnað og greiða bætur vegna innkeyptra jólamatvara sem ekki geymast lengi.

Eins verður lagt til fé til að bæta kostnað vegna veislufanga sem verða ónothæf vegna þess að aflýsa þarf viðburðum af tiltekinni stærð.