Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Áburður tvöfalt dýrari en í fyrra

Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Verð á áburði til bænda hefur hækkað mikið frá því í fyrra. Tonn af áburði sem kostaði í fyrra um 57 þúsund krónur kostar í ár um 120 þúsund krónur, eða rúmlega tvöfalt meira.

Sláturfélag Suðurlands kynnti í gær áburðarverð fyrir næsta ár en á hverju ári gefa fyrirtæki sem flytja inn tilbúinn áburð út verð til bænda. SS er fyrst fyrirtækja til að kynna verðskrá sína. Til samanburðar er hér verðskráin frá því í fyrra.

Hækkanirnar eru mismiklar á milli tegunda en til að mynda hækkar köfnunarefnisáburður um rúmlega 100 prósent á milli ára á hvert tonn. Hið sama gildir um fleiri tegundir. Kalk hefur ekki hækkað mikið í verði á milli ára, en það er ekki eiginlegt áburðarefni heldur er það notað til þess að hækka sýrustig jarðvegs og túna og auka aðgengi gróðurs að næringarefnum.

Í umsögn Bændasamtakanna um fjárlagafrumvarpið er áhyggjum lýst yfir vegna hækkandi áburðarverðs. Ástæðurnar fyrir hækkuninni eru sagðar margar en meðal annars er það rakið til hækkandi orkuverðs í Evrópu. Gunnar Þorgeirsson formaður Bændasamtakanna segir hækkanirnar koma til vegna nokkra samverkandi þátta. Til að mynda flytja Rússar og Kínverjar minna út af áburði en áður.

„Við höfum svo sem verið að undirbúa menn undir þessar hækkanir því við erum búnir að vera að horfa á það á haustdögum stefna í þessa átt þar sem virðist vera gríðarlega hátt orkuverð í hinni stóru Evrópu sem gerir þetta svolítið af verkum að þetta er að raungerast á þessum skala. Við höfum rætt það alveg frá því í haust að menn þurfi svolítið að nýta betur þá kosti sem þeir eiga, húsdýraáburð og annað og fá leiðbeiningar um áburðaráætlanir.“ segir Gunnar.

Finnst Íslendingar eiga að framleiða sinn eigin áburð

Samtökin hafa fundað með Svandísi Svavarsdóttur landbúnaðarráðherra og lýst yfir áhyggjum af hækkandi verði. Hann vonast til þess að frá henni komi tillaga um stuðning til bænda á formi ræktunarstyrkja, en ekki beint til áburðarkaupa. Til lengri tíma litið segir Gunnar að menn verði að vera opnir fyrir notkun á ýmsum öðrum næringargjöfum fyrir nytjaplöntur. Það hafi verið gleðilegt að heyra af áformum um að byggja áburðarverksmiðju í tengslum við orkugarð Austurlands á Reyðarfirði í vikunni.

„Ég er nú svo bjartsýnn að ég vona að þetta sé tímabundið covid/orkuverð til lengri framtíðar en auðvitað þurfum við að leita fleiri lausna í áburðargjöf á Íslandi. Ég hef haft þá skoðun að Íslendingar eiga að frameiða sinn áburð sjálfir. Auðvitað þurfum við að horfa til þess í loftslagstilliti hvernig við drögum úr áburðarnotkun. Þetta hvetur okkur enn og meira til dáða í því að leita annara lausna en að gera þetta með þessum hætti.“ segir Gunnar.

Bændur hafa til að mynda verið að leita leiða til að nota moltu og seyru til að bera á tún. Eins sé hægt að nota fiskimjöl eða annan lífrænan úrgang. Hækkandi verð hvetji menn til dáða til að flýta þeirri innleiðingu.

Hann segir að önnur aðföng eins og rúlluplast sé einnig að hækka mikið á milli ára. Gert er ráð fyrir að sú hækkun nemi allt að 30 prósentum. Þá eigi það eftir að koma í ljós næsta haust hversu mikil hækkun á korni verður í þeim löndum sem fóðurbætir er fluttur inn frá. Hátt áburðarverð nú komi til með að hafa áhrif á uppskeruna í sumar og næsta haust þar ytra. 

Fréttin hefur verið uppfærð