Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

22 Afganir væntanlegir til landsins á þriðjudag

Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Næstkomandi þriðjudag eru 22 Afganir væntanlegir til Íslands en þeir eru hluti þess 120 manna hóps sem ríkisstjórnin ákvað að taka á móti í kjölfar valdatöku Talibana í ágúst.

Fólkið lenti í Georgíu í gærmorgun að því er fram kemur í tilkynningu á vef stjórnarráðsins. Að þessum hópi meðtöldum sem nú er væntanlegur hafa íslensk stjórnvöld tekið á móti 83 Afgönum en 40 þeirra sem boðið var hingað þáðu boð um skjól í öðru ríki.

Mikillar samhæfingar er þörf við flókna aðgerð á borð við þessa en íslensk yfirvöld hafa unnið náið með stjórnvöldum í Svíþjóð, Georgíu og Katar við að koma fólkinu til landsins.

Fulltrúar Íslands tóku á móti hluta hópsins sem ráðamenn í Katar aðstoðuðu við að koma þangað og alþjóðalega fólksflutningastofnunin liðsinnti því fólki sem komist hafði til Írans, Pakistan og nú til Georgíu. Eins kom Rauði krossinn að verkinu.

Ríkisstjórnin ákvað í ágúst að áhersla skyldi lögð á að bjóða hingað Afgönum sem unnið hefði fyrir Atlantshafsbandalagið, fyrrverandi nemendum alþjóðlega jafnréttisskólans á Íslandi og þeim sem áttu rétt á fjölskyldusameiningu eða áttu þegar samþykkta umsókn um dvalarleyfi.