Varað við bikblæðingum á Norðurlandi

17.12.2021 - 16:14
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Vegagerðin á Norðurlandi varar við malbiksblæðingum á Þverárfjalli og Hámundarstaðahálsi. Eftirlit verður haft með vegaköflunum um helgina og er ökumönnum bent á að nota heldur aðrar leiðir ef hægt er.

Ökumönnum bent á að nota aðrar leiðir

Heimir Gunnarsson, verkstjóri hjá Vegagerðinni, segir að ökumenn um Þverárfjall og Hámundarstaðaháls þurfi að aka varlega vegna bikblæðinga. Aðallega hefur þetta áhrif á stærri bíla og hefur þeim sem eiga erindi um Þverárfjall verið bent á að aka frekar Vatnsskarðið.

„Þetta er kafli sem var tekinn fyrir seint í sumar, um 13. desember í fyrra fengum við miklar blæðingar. En það var þá eftir langan frostkafla og svo asahláka, en núna höfum við ekki verið að fá þesa miklu frostkafla þannig að þetta eru sennilega minni líkur á blæðingum,“ segir Heimir.

Eftirlit verður um helgina

Heimir segir skemmdirnar á Þverárfjalli vera staðbundnar við nýuppgerða kaflann sem sé um 3-4 kílómetrar. Hversu stór kaflinn er á Hámundarstaðahálsi er ekki alveg ljóst.

„Við erum með eftirlit með öllum vegum í kvöld og um helgina til að fylgjast með þessu. Það er náttúrulega hláka núna. Þetta er erfiðasti tíminn varðandi bikblæðingar.“

Vegagerðin hvetur þá sem verða varir við bikblæðingar á Norðurlandi að hafa samband í síma 1777.