Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Skora á Kópavogsbæ að fella niður skólahald á mánudag

17.12.2021 - 15:23
Mynd með færslu
Íslenskutími hjá 8. bekk í Hrafnagilsskóla Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Trúnaðarmenn kennara í átta grunnskólum í Kópavogi skora á bæjarstjórn Kópavogs að fella niður kennslu mánudaginn 20.desember. Er það gert í ljósi fjölgunar kórónuveirusmita í samfélaginu en þau börn sem útsett verða fyrir covid-smiti á mánudag verða að dvelja í sóttkví eða smitgát yfir jólin.

Fyrst og fremst með hagsmuni nemenda að leiðarljósi

Hreiðar Oddsson, trúnaðarmaður kennara Álfhólsskóla, segir að með áskoruninni sé fyrst og fremst verið að horfa til nemenda.  Kennarar séu fullorðið fólk, beri grímur og viðhaldi sóttvarnir. Börnin séu frjálslegri með sóttvarnirnar og sameiginlegir snertifletir þeirra margir. 

„Það er mikill fjöldi smita í grunnskólum í Kópavogi og með því að sleppa mánudeginum gætum við mögulega verið að tryggja að enginn verði útsettur fyrir smiti þann daginn, " segir Hreiðar.  

Skert jóladagskrá á mánudag

Ekki verður hefðbundin dagskrá á mánudag en flestir nemendur mæta aðeins í tvær til þrjár klukkustundir í skólann. Í venjulegu árferði er einnig jólaball á þessum degi en ekki verður af balli í ár. 

„Í flestum skólum eru þetta litlu jólin með umsjónarkennara í stofu. Svo hefur venjan verið að halda jólaball en það verður ekki núna. Svo eftir standa þá svona notalegheit, " segir Hreiðar. Hann er þá ekki bjartsýnn á að bæjaryfirvöld í Kópavogi verði við beiðninni og geri kennarar því ráð fyrir skóladegi á mánudag. Margir nemenda hans hafi þó þegar kvatt hann í dag og því virðist sem þónokkrir foreldrar ætli sér að halda börnum sínum heima fram að jólum.

 

Trúnaðarmenn eftirfarandi skóla standa að baki áskoruninni:

  • Álfhólsskóli
  • Hörðuvallaskóli
  • Kársnesskóli
  • Lindaskóli
  • Salaskóli
  • Smáraskóli
  • Snælandsskóli
  • Vatnsendaskóli