Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Mæla með bóluefnum Moderna og Pfizer umfram Janssen

In this image from video, Dr. Rochelle Walensky, director of the Centers for Disease Control and Prevention, speaks during a White House briefing on the Biden administration's response to the COVID-19 pandemic Wednesday, Jan. 27, 2021, in Washington. (White House via AP)
 Mynd: AP Images - RÚV
Sérfræðinganefnd á vegum Sóttvarnarstofnunar Bandaríkjanna (CDC) hefur komist að þeirri einróma niðurstöðu að mæla fremur með notkun mRNA bóluefna Pifzer og Moderna en þess bóluefnis sem Johnson & Johnson framleiðir.

Það efni er þekkt undir heitinu Janssen og mat sérfræðihópsins er að það veiti síðri vörn og því fylgi meiri aukaverkanir, að því er fram kemur í umfjöllun AFP-fréttaveitunnar. 

Með þessu er bandarískum almenningi opinberlega beint frá bóluefninu en þegar það kom fram var því hampað vegna þess hve einfalt var að geyma það. Auk þess veitti það betri vörn gegn fyrri afbrigðum veirunnar en þeim sem nú ráða ríkjum.

Rannsóknir benda til að bóluefnið veiti litla vörn gegn smitum af völdum Omíkron-afbrigðisins. Ákvörðun sérfræðingahópsins leiðir ekki af sér bann á notkun bóluefnisins.

Fyrr á árinu leiddu rannsóknir í ljós tengsl efnisins við blóðkekkjun sérstaklega hjá konum á barneignaraldri en síðari rannsóknir á vegum matvæla- og lyfjaeftirlits Bandaríkjanna benda til að sú aukaverkun sé algengari en talið var og ekki bundin við konur.

Níu hafa látist af þeim sökum vestra auk þess sem nokkur fjöldi þurfti á gjörgæsluinnlögn að halda. Nokkrir glímdu við tímabundna lömun eftir að hafa fengið bóluefnið.

Notkun bóluefnis Johnson var hætt um hríð fyrr á árinu uns það var tekið í notkun að nýju í apríl. Síðan þá hafa bandarísk heilbrigðisyfirvöld lítið boðið efnið.

Bent er á að aukaverkanir fylgi einnig efnum Moderna og Pfizer á borð við hjartavöðvabólgu meðal ungra karlmanna en enginn dauðsföll séu þó skráð vegna þess.

Í niðurstöðu sérfræðihópsins segir að bann við notkun bóluefnis Johnson & Johnson sendi neikvæð skilaboð til þeirra ríkja heims þar sem það mögulega er eina bóluefnið sem í boði er.

Rochelle Walensky forstjóri Sóttvarnarstofunar Bandaríkjanna hvetur landa sína til að þiggja bólusetningu og örvunarskammt gegn kórónuveirunni.