Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Hrunið bergmálar enn

17.12.2021 - 17:50
Mynd: RÚV / RÚV
Bankahrunið 2008 mótaði framvinduna næstu árin á Íslandi og bergmálar kannski enn. Í síðasta Spegilspistli sínum rifjar Sigrún Davíðsdóttir upp nokkur atriði varðandi hrunið og eftirmál þess, sem hún fylgdist grannt með á sínum tíma.     

Óeðlileg lán, fyrir og eftir einkavæðingu bankanna

Eitt af því sem opinberaðist eftir bankahrunið í október 2008 var að í öllum bönkunum hafði stærstu eigendunum verið lánað óeðlilega mikið. ,,Óeðlilega“ að því leyti að lánin voru langt umfram það sem veðin stóðu undir.

Þegar þetta var að koma í ljós ræddi tíðindamaður Spegilsins við bankamann sem hafði unnið í einum ríkisbankanum á áttunda áratugnum. Lán án nægra veða voru kunnugleg, sagði viðkomandi, tíðkuðust í ríkisbönkunum. Líka til fólks með góð sambönd, á þeim tíma pólitísk sambönd.

Bankakerfi á við tífalda eða ríflega eina landsframleiðslu

Það var því samhengi í verklagi ríkisbankanna og þeirra einkavæddu. En, af því einkavæddu bankarnir fjármögnuðu sig óspart erlendis, bólgnuðu lánin út í takt við efnahagsreikninga bankanna sem í lokin voru á við tífalda íslenska landsframleiðslu. Bankakerfið nú er ríflega ein landsframleiðsla.

Írska hrunið og dauði keltneska tígrisdýrsins

Íslenska bankahrunið var ekki alveg einstakt. Írland kannski nærtækasta hliðstæðan. Þar fóru líka þrír stærstu bankarnir í þrot en ríkið bjargaði þeim, andstætt því sem var á Íslandi. Á tíunda áratugnum var uppgangurinn á Írlandi svo mikill að það var talað um keltneska tígrisdýrið, hliðstætt hávaxtarlöndum Asíu. Vöxturinn var þjóðarstolt Íra sem í aldir og áratugi höfðu þurft að flytja úr landi í leit að vinnu. Keltneska tígrisdýrið dó í írska bankahruninu 2008 sem var því tvöfaldur skellur: efnahagsáfall og þetta að draumurinn um endalok brottflutnings dó.

Rannsóknarskýrslan nútíma Íslendingasaga

Ítarleg skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis í átta bindum um fall bankanna er einstök í alþjóðlegu samhengi. Og já, lesin frá upphafi til enda á fjölum Borgarleikhússins þegar hún kom út 2010. Sem nútíma Íslendingasaga varð hún innblástur að leikriti Þorvalds Arnar Arnarssonar og Mikaels Torfasonar 2017 eins og Þorvaldur Örn lýsti í Silfri Egils.

Þegar ég og Mikael Torfason, sem er að vinna handrið að þessu með mér, vorum að gera Njálu sem einhvers konar samfélagslegra rannsókn á íslensku þjóðarsálinni og litum kannski á Njálu sem 800 ára gamalt WikiLeaks skjal um íslensku þjóðarsálina og ættbálkasamfélagið og klofninginn og hvernig við brjótum samfélagssáttmálann þá fór ég að horfa inn í, hugsaði með mér, hvað á maður að gera næst. Hvernig heldur maður áfram með þessa rannsókn. Ég sat inni á æfingu og allt í einu rann upp fyrir mér: við eigum nútíma Íslendingasögu. Við eigum sögu þar sem höfðingjarnir okkar, þeir sem hafa bæði klappað okkur og brotið á okkur komu og settu fram sína sýn.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Rannsóknarskýrslan, einstök heimild um orðfærið fyrir hrun

Þessi nútíma Íslendingasaga er meðal annars byggð á viðtölum við helstu persónur hrunsins, full af beinum tilvitnunum. Orðfærið heyrist því, eins og þegar Jón Ásgeir Jóhannesson lýsir fundum þriggja yfirmanna bankanna, þeirra Hreiðars Más Sigurðssonar forstjóra Kaupþings, Lárusar Weldings forstjóra Glitnis og Sigurjóns Árnasonar forstjóra Landsbankans:

„[...] sko, það var alltaf vandamál þegar þeir þrír [Hreiðar Már Sigurðsson, Lárus Welding og Sigurjón Þ. Árnason] komu saman. Það er bara, var „history“ að, hversu oft var í, örugglega þrisvar eða fjórum sinnum að annaðhvort Sigurjón sprakk eða Hreiðar sprakk og þeir fóru út og skelltu hurðum. Það var dálítið vandamál sem átti sér langa sögu. Lalli var svona, litið á hann sem kannski dálítið peð á milli þeirra, voru þarna tveir kóngar og Hreiðari fannst Sigurjón alltaf vera að tala illa um Kaupþing og svo „omvendt“. En það voru samt svona tveir, þrír alvörufundir þar sem menn náðu saman.“

Traust og lygar

Árni Mathiesen þá fjármálaráðherra sagðist fyrir rannsóknarnefndinni telja að bankamennirnir hefðu satt ósatt um stöðu bankanna, nefndi sérstaklega Björgólf Thor Björgólfsson.

„Og verstur var Björgólfur [Thor Björgólfsson] [...] og hann var að ljúga að hinum líka og þeir komu svo bara um kvöldið og sögðu: Það er ekkert að marka það sem þessi maður segir. Þeir voru að reyna að finna leið til að sameina Kaupþing og Landsbankann til þess að þeir gætu staðið þetta og Björgólfur sagði bara: Við reddum þessu og við reddum þessu.“

Lygar eða ekki, þá sýnir skýrslan að eitt af því sem torveldaði öll úrræði í lokin var skortur á trausti milli stjórnenda bankanna. Sigurður Einarsson stjórnarformaður Kaupþings sagði fyrir rannsóknarnefndinni:

„Ég held ég geti alveg svarað því hversu mikið traust var – það var ekkert traust. Ég held að það sé nokkuð ljóst.“

Björgólfur Guðmundsson stjórnarformaður Landsbankans nefndi það sama, ekkert traust milli forstjóra bankanna.

„...á köflum fannst mér þeir vera þarna uppi í háskóla í einhverri háskólapólitík, töluðu, mállýskan var þannig, þannig að það var aldrei, aldrei, mér fannst aldrei vera þannig samband á milli bankastjóranna, svona vinveitt.”

Embætti sérstaks saksóknara – niðurskurðurinn kom of snemma

Írar eiga sér enga hliðstæða skýrslu, vita því ekki hverjir fengu stærstu lánin eða hvernig bankamennirnir ræddu hrunið. Annað einstakt í íslensku hrunviðbrögðunum var embætti sérstaks saksóknara, samþykkt af Alþingi á vikunum eftir hrun. Í fjölda sakamála tengdum bönkunum fékkst enn frekari innsýn. Hanna Birna Kristjánsdóttir varð innanríkisráðherra í stjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks 2013 og strax þá um haustið var skorið niður hjá embættinu. Ýmsir viðmælendur Spegilsins telja að það hafi verið of snemmt, mörg mál ekki rannsökuð vegna niðurskurðarins.

Í febrúar síðastliðnum var rætt á Alþingi um ábendingar í rannsóknarskýrslum um fall bankanna varðandi stjórnkerfið.   

„Herra forseti. Ég þakka fyrir umræðuna sem hv. þingmönnum þykir misgagnleg. Það eru ekki margir hv. þingmenn á þingi enn sem voru hér í hruninu en ég er ein þeirra sem var hér þá,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.

Lærdómurinn og endurtekið efni

Bæði á Írlandi og Íslandi hafa menn reynt að draga lærdóm af hruninu. Ljóst að stjórnarhættir bankanna voru slakir. Sterkt kunningjasamfélag hafði slæm áhrif. Í báðum löndum brást fjármálaeftirlitið illilega.

Það er ekki aðeins á Íslandi að það er skuggalega lítil athygli á hlutverki fjármálaeftirlits og reyndar eftirlitsstofnana almennt. Veikt fjármálaeftirlit í rimmu við fjármálakerfi sem hefur nóg fjármagn til að glíma við eftirlit, hvata, sem ýta frekar undir áhættusækni en umþenkingu. Og það er ekkert nýtt, við sáum hvað gerðist 2008.

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV