Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Ekki merki um byrlun í málunum þremur á Akureyri

Mynd með færslu
 Mynd: Eva Björk Benediktsdóttir - RÚV
Rannsókn lögreglunnar á Norðurlandi eystra á þremur tilvikum þar sem grunur var um að einstaklingum hefði verið byrlað ólyfjan, er lokið. Í öllum málunum voru tekin blóðsýni fljótlega eftir að grunur vaknaði um byrlun, en ekki fundust nein merki um deyfilyf eða fíkniefni. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Norðurlandi eystra.

Í október vaknaði grunur um að einstaklingunum þremur hefði verið byrluð ólyfjan á skemmtistöðum eða í heimahúsum á Akureyri. Samkvæmt lögreglunni á Norðurlandi eystra fannst töluvert magn áfengis í blóði einstaklinganna þriggja.

Töluvert hefur verið fjallað um byrlunarmál nýverið og hefur talskona Stígamóta, meðal annarra, kallað eftir skýrari ramma í slíkum málum. Ævar Pálmi Pálmason, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá kynferðisbrotadeild lögreglunnar, segir þessi mál geta verið sérstaklega erfið viðureignar þar sem efnin sem notuð eru greinist ekki endilega í blóði.