Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Reyna að tryggja börnum næði í fjöldabólusetningum

16.12.2021 - 18:42
Mynd: Hjalti Haraldsson / RÚV
Smitsjúkdómalæknir barna segir engin viðvörunarljós varðandi bólusetningar barna. Reynt verður að skapa aðstæður þar sem börnin verði ekki vör við hvert annað í fjöldabólusetningunni til að fyrirbyggja núning milli þeirra en samtalið um bólusetninguna verði að fara fram heima fyrir. Persónuvernd þeirra verður að vera tryggð í þessum aðstæðum að mati umboðsmanns. 

Um 40% þeirra sem smitast dag hvern hér á landi eru börn. Bólusetningar 5-11 ára hefjast um miðjan janúar. Þetta eru rúmlega 30 þúsund börn á landinu öllu, á höfuðborgarsvæðinu hefur verið ákveðið að bólusetja í skólum, sem eru 75 talsins. Fljótlega fá forræðisforeldrar upplýsingar um hvernig þeir eigi að skrá barnið í bólusetningu. „Við það að skrá barnið, fær foreldrið sent strikamerki, sem það mætir með í bólusetninguna,“ segir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Mæta beint í bólusetningu við komu í skólann

Foreldrar eiga að fylgja börnunum í bólusetningu. Stefnt er að því að skóladagurinn verði skertur þann dag sem bólusetningin fer fram. „Þannig börnin mæta í skólann jafnt og þétt þegar þau eiga að mæta í sína bólusetningu, og þau sem ætli ekki að þiggja, þá geta þau bara farið inn í sína stofu, síðan fyllist skólinn jafnt og þétt.“

Umboðsmaður barna segir í samtali við fréttastofu að persónuvernd barnanna verði að vera tryggð við slíkar aðstæður og að þau fái aðgang að upplýsingum um bólusetninguna. „Við getum skapað ákveðnar aðstæður fyrir bólusetninguna og reynt að lágmarka það að börn verði vör við hvort annað. En við getum ekki fyrirbyggt það að börn tali saman, ég held að það sé mikilvægt fyrir foreldra að ræða við börnin sin um það hvernig þau ætla að taka umræðuna. Og gefa þeim góð ráð. Hvort sem þau eru bólusett eða ekki bólusett.“

Nítján heilsugæslustöðvar eru á höfuðborgarsvæðinu. Af hverju ekki að láta börn og foreldra mæta með strikamerkin þangað til að tryggja að næði? „Við sáum strax að við myndum ekki ná því, þær eru margar litlar. Ef það þarf að bíða þarna í korter þá sáum við fram á það að við yrðum fram á vor að þessu.“

Þó að börn smitist frekar af nýrri afbrigðum veirunnar eru hlutfallslega fá börn sem þurfa sjúkrahúsinnlögn eða 0,6%. Af hverju þá að bólusetja þau? „Ef við myndum taka ákvörðun, við ætlum ekki að bólusetja börn. Þá værum við á sama tíma að segja: Við ætlum að láta börnin okkar smitast af veirunni. Og taka afleiðingunum sem af því verða. Það er nokkuð þekkt stærð,“ segir Valtýr Stefánsson Thors, barnasmitsjúkdómalæknir Landspítala.

„Engin rauð flögg“

Samkvæmt útreikningum sóttvarnalæknis myndu þá 100-200 íslensk börn leggjast inn á sjúkrahús og eitt til tvö börn myndu látast. „Þegar við erum með bóluefni sem við vitum að virkar, það hefur sýnt sig og það er öruggt. Þá er varla hægt að taka þá ákvörðun að sleppa þessu.“

Valtýr hvetur foreldra til að hlusta á sérfræðingana á þessu sviði. „Hingað til hafa á milli 5-10 milljónir barna á þessum aldri verið bólusett. Og engin rauð flögg komin fram sem segja okkur að við ættum ekki að fara þessa leið.“

Sumir telja að það sé verið að taka heildarhagsmuni samfélagsins fram yfir hagsmuni barnanna, hvernig viltu bregðast við því? „Já, ég heyri að fólk er að halda þessu fram. En það er aldrei hvorki í þessu  bóluefni né öðrum bóluefnum aðalmál ákvörðunartökunnar. Forgangsatriðið er að verja barnið sjálft,“ segir hann.