Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Play hefur flug til Bandaríkjanna

16.12.2021 - 11:57
Mynd með færslu
 Mynd: Play
Flugfélagið Play hefur flug til Bandaríkjanna í vor og segist forstjórinn ekki óttast samkeppnina við Icelandair eða önnur flugfélög, sérstaða Play verði verðið. Þrjár nýjar vélar bætast í flotann í vor.

Miðasala fyrir Bandaríkjaflugið hefst í dag. Byrjað verður að fljúga til Washington/Baltimore 20. apríl og til Boston 11. maí. Fyrir á markaðnum með flug milli Íslands og Bandaríkjanna er Icelandair, en bandarísku flugfélögin Delta og United fljúga einnig yfir sumartímann eins og staðan er núna. Birgir Jónsson forstjóri Play telur félagið vel í stakk búið að keppa á Atlantshafsflugleiðinni.

„Þetta hefur alltaf verið okkar markmið að stilla þessu módeli svona upp og við höfum séð að það sem skiptir máli í þessum rekstri er verðið og þar af leiðandi kostnaðurinn. Við trúum því að með því að koma inn með besta verðið á markaðnum munum við getað unnið okkur stað á þeim markaði, þannig að við erum mjög örugg með að geta náð góðri stöðu.“

Hann óttast ekki að Icelandair lækki verðið hjá sér í samkeppninni, það hafi verið gert á öðrum flugleiðum, en verðlækkun verði þá einungis til hagsbóta fyrir alla neytendur. Samkvæmt áætlun verður flogið daglega til þessara áfangastaða. Sem fyrr segir hefst flugið í vor og vonast Birgir til að þá verði ástandið vegna heimsfaraldursins orðið betra.

„Ég held að flestir séu nú að gera ráð fyrir að næsta sumar verði nær eðlilegum tölum í ferðaiðnaðinum, en við erum eins og áður að byrja hægt, fara inn á tvo staði og höfum vaðið fyrir neðan okkur.“

Þrjár vélar bætast í flotann í vor og verða þá orðnar sex, og verða orðnar tíu á þarnæsta ári. Covid hefur auðvitað haft áhrif á rekstur félagsins, en Birgir segir bókanir hafa verið góðar.

„Við erum í sjálfu sér mjög sátt við viðtökurnar og hvernig þetta hefur farið af stað.“
 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV