Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Ný kirkja rís í Grímsey næsta sumar

16.12.2021 - 15:57
Mynd með færslu
 Mynd: Hjörleifur Stefánsson - Rúv
Undirbúningur fyrir byggingu nýrrar kirkju í Grímsey er vel á veg kominn. Enn vantar þó töluvert fjármagn til enduruppbyggingarinnar og er ósk Grímseyinga að fleiri fyrirtæki leggi söfnuninni lið.

Mikið unnið með náttúruna í eynni

Strax eftir að Miðgarðakirkja brann til grunna í september var vilji Grímseyinga skýr um að byggja ætti nýja kirkju í eynni.

Sóknarnefnd Miðgarðakirkju skrifaði á dögunum undir samning við smíðaverkstæði um smíði nýrrar kirkju. Hjörleifur Stefánsson arkitekt hefur verið ráðinn byggingarstjóri. Arna Björg Bjarnadóttir hefur yfirumsjón með verkefninu.

„Hún hefur skýra skírskotun til gömlu kirkjunnar en það er unnið mikið með náttúruna á staðnum, vistvæn efni og þess háttar. Hún verður byggð að að hluta til úr rekavið eða lerki. Altarið verður úr stuðlabergi og skírnarfonturinn, og sömuleiðis flísar á gólfinu úr stuðlabergi og vonandi þakið líka.“ 

Enn vantar talsvert fjármagn

Nýja kirkjan verður byggð aðeins stærri í ljósi nútíma krafna. Einnig er horft til þess að hún nýtist til fleiri athafna en helgihalds.

Arna segir að markmiðið sé að kirkja verði tilbúin að utan 22. september eða sama dag og gamla Miðgarðakirkja brann. Vinna innan í kirkjunni mun þó taka eitthvað lengri tíma.

Þeir sem vilja leggja söfnun fyrir nýrri kirkju lið er bent á reikning Miðgarðakirkju, 565-04-250731, kt. 4602692539.

Mynd með færslu
 Mynd: Hjörleifur Stefánsson - Rúv

Fljótlega eftir brunann fór af stað söfnun fyrir kirkjunni og segir Arna Björg einstaklinga og félagasamtök hafa veitt talsvert fé af hendi og fyrir það séu Grímseyingar þakklátir. Vonir standa til að fleiri fyrirtæki taki við sér.

„Það er dýrt að smíða heila kirkju, sérstaklega úti í Grímsey, því það þarf að flytja allt efni og mannskap að. Þannig að það vantar enn töluvert fjármagn,“ segir Arna Björg.