Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Leyniskjöl um rannsókn á morði Kennedys opinberuð

16.12.2021 - 01:17
epa05990667 A handout photo made available by the John F. Kennedy Presidential Library shows US President John F. Kennedy signing the Proclamation for Interdiction of the Delivery of Offensive Weapons to Cuba in the Oval Office in Washington, DC, USA, 23
 Mynd: EPA - JFK Presidential Library
Nærri fimmtán hundruð leyniskjöl tengd rannsókninni á morði Johns F. Kennedy Bandaríkjaforseta 22. nóvember 1963 voru gerð opinber í dag.Fjölmargar kenningar hafa sprottið upp um morðið á þeim tæpu 60 árum sem liðin eru frá morðinu.

Flestar kenningarnar hafna þeirri niðurstöðu að Lee Harvey Oswald hafi verið einn að verki í Dallas þennan nóvemberdag. Löggjöf frá árinu 1992 skyldar bandarísk stjórnvöld til að opinbera allar þær upplýsingar til eru um málið. Skölin eru aðgengileg á vefsíðu bandaríska þjóðskjalasafnsins.

Skjölin telja mörg þúsund blaðsíður og sýna að alríkislögreglan FBI og leyniþjónustan CIA höfðu alla anga úti að komast að hvort Oswald hafi átt sér samverkamenn.

Kúba, Sovétríkin og ítalska mafían rannsökuð

Meðal annars sýna þau að rannsakendur hafi horft til sovésku leyniþjónustunnar, hópa kommúnista í Afríku og ítölsku mafíunnar. Einnig má þar greina umfang njósna Bandaríkjanna á Kúbu en Oswald hafði sambönd þar.

Kennedy hafði gert tilraun til að fella kommúnistastjórn Fidels Castro sem náði þar völdum árið 1959. Oft er því haldið fram að Sovétmenn eða Kúbustjórn hafi fengið Oswald til verksins.

Eins hefur því verið gert skóna að andstæðingar Kúbu hafi staðið að morðinu jafnvel með fulltingi bandarísku leyniþjónustunnar eða alríkislögreglunnar. Einnig eru þeir til sem telja pólítíska andstæðinga Kennedys hafa látið myrða forsetann unga. 

Enn er nokkuð magn skjala óbirt

Donald Trump heimilaði í sinni forsetatíð birtingu nokkurra þúsunda leyniskjala um morðið en hélt eftir þeim sem vörðuðu þjóðaröryggi. Við það voru um 88% allra skjala um Kennedy-morðið orðin opinber. 

Joe Biden núverandi forseta hét í upphafi árs að halda birtingum áfram en var harðlega gagnrýndur í október síðastliðnum þegar ákveðið var að fresta frekari birtingum. 

Þá var því haldið fram að heimsfaraldur væri ástæða tafanna auk þess sem nauðsynlegt væri að bíða nokkuð með birtingu þeirra til þess að vernda þjóðaröryggi. 

Philip Shenon, sérfræðingur um skjalasafnið, telur líklegt að talsvert magn skjala verði aldrei birt af öryggisástæðum. Hann segir það ýta undir að samsæriskenningar um málið lifi áfram góðu lífi. Hann kveðst telja að um 15 þúsund skjöl, einkum frá CIA og FBI séu enn óbirt. 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV