Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Söngvakeppnin haldin í kvikmyndaverinu í Gufunesi

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Söngvakeppnin haldin í kvikmyndaverinu í Gufunesi

15.12.2021 - 09:48

Höfundar

Söngvakeppni RÚV fær nýtt heimili á næsta ári og fer fram í kvikmyndaverinu í Gufunesi.

Söngvakeppnin fer fram á RÚV í febrúar og mars, þar sem framlag Íslands í Eurovision, sem haldin verður í Torino á Ítalíu, í maí verður valið. 

Undanfarin ár hafa undanúrslit Söngvakeppninnar ráðist í Háskólabíói og úrslitin í Laugardalshöll. Á næsta ári verða viðburðirnir haldnir á nýjum stað, í Söngvakeppnishöllinni svokallaðri, sem er í kvikmyndaveri RVK Studios í Gufunesi. Keppt verður þrjá laugardaga í febrúar og mars. Undanúrslitakeppnirnar verða 19. og 26. febrúar og úrslitakeppnin 5. mars og þar verður framlag Íslands valið.

Eins og síðustu ár verða miðar seldir á öll kvöldin. Auk laganna tíu verða sem fyrr skemmtiatriði af ýmsum stærðum og gerðum. Von er á erlendum Eurovision-stjörnum og Daði Freyr kemur fram á úrslitakvöldinu eins og venja er með fyrrum Eurovision-fara. Miðasala á viðburðina hefst í lok janúar. 

Tíu lög af 158 innsendum valin í keppnina

Alls voru 158 lög send inn í Söngvakeppnina í ár. Ráðgefandi valnefnd, skipuð fulltrúum frá FÍH, FTT og RÚV, hlustaði á öll lögin og skilaði framkvæmdastjórn keppninnar áliti sínu. Framkvæmdastjórnin hefur valið 10 lög til keppni. Af þeim voru fimm valin úr innsendum lögum og sem fyrr var leitað sérstaklega til valinkunnra og reynslumikilla höfunda með hin lögin fimm.

Rúnar Freyr Gíslason, framkvæmdastjóri keppninnar, segir að hún vaxi með ári hverju. „Við finnum ekki einungis fyrir síauknum áhuga meðal þjóðarinnar heldur fer ekki á milli mála að áhuginn á þátttöku eykst bæði meðal lagahöfunda og flytjenda. Lagahöfundar sjá að þetta er raunverulegur gluggi inn í bransann, alvöru stökkpallur, ekki bara hér á landi, heldur í Evrópu og víðar,” segir hann og bendir þar sérstaklega á vinsældir Hatara og Daða Freys. „Bæði Eurovision-lög Daða hafa til dæmis verið leikin um 127 milljón sinnum á Spotify, það er ekkert smáræði.” 

Leikstjórar og danshöfundar keppninnar í ár eru þau Lee Proud og Unnur Elísabet Gunnarsdóttir. Lee hefur leikstýrt síðustu tveimur keppnum en Unnur Elísabet er með í fyrsta sinn. Stjórnandi útsendingar er Salóme Þorkelsdóttir, framleiðandi hjá RÚV. Hún hefur bæði stjórnað og unnið við útsendingar keppninnar um árabil. Hljóðhönnuður og tónlistargæðastjóri er Gísli Kjaran Kristjánsson hljóðmaður á RÚV. Söngþjálfari er Kristjana Stefánsdóttir söngkona. Hún þjálfaði einnig keppendur í síðustu keppni. Stílisti er Ellen Lofts. Hún hefur unnið við ótal verkefni tengd sjónvarpi, tísku og tónlist undanfarin ár. Sviðs- og ljósahönnun er í höndum Luxor. 

Lögin frumflutt í janúar 

Lögin 10 sem taka þátt í Söngvakeppninni í ár verða kynnt í sjónvarpsþætti á RÚV laugardaginn 29. janúar og gerð aðgengileg á helstu tónlistarveitum. Sama dag birtast lögin og upplýsingar um höfunda og flytjendur á songvakeppnin.is. 

Tengdar fréttir

Menningarefni

Ísland í öðru sæti undanriðilsins

Menningarefni

Þjóðin sendi Daða og Gagnamagninu fallegar kveðjur

Menningarefni

Daði og Gagnamagnið eru tilbúin fyrir stóra daginn

Tónlist

Frumflutningur á framlagi Íslands í Eurovision 2021