Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Omíkron smitast 70 sinnum hraðar en delta

15.12.2021 - 17:36
Mynd með færslu
 Mynd: HKU Med
Rannsóknir vísindamanna við Hong Kong-háskóla sýna að omíkron-afbrigði kórónuveirunnar smitast sjötíu sinnum hraðar en önnur afbrigði. Gera má ráð fyrir að það verði orðið ríkjandi í Evrópu um miðjan næsta mánuð.

Hópur vísindamanna í Hong Kong hefur að undanförnu rannsakað omíkron-afbrigðið. Honum stjórnar Michael Chan Chi-wai, dósent í lýðheilsufræðum við Hong Kong-háskóla og helsti vísindamaður rannsóknarstofnunar skólans í ónæmis- og smitrannsóknum.

Vísindamennirnir hafa komist að því að omíkron margfaldast allt að sjötíu sinnum hraðar í neðri loftvegum en delta og önnur þekkt afbrigði veirunnar. Við vinnuna notuðust þeir meðal annars við rannsókn vísindamanna við tvo aðra háskóla í Hong Kong.

Góðu fréttirnar eru þær að sjúkdómseinkenni af völdum omíkron eru allt að tíu sinnum vægari en en delta-afbrigðisins. Þá sýnir rannsóknin að bóluefni Pfizer-BioNTech er að minnsta kosti þrjátíu og tvisvar sinnum áhrifaríkara gegn omíkron en hið kínverska Sinovac.

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sagði í dag að reiknað væri með að omíkron-afbrigðið yrði orðið ráðandi í ESB-ríkjum um miðjan janúar. Hún kvað nóg vera til af bóluefni til að berjast gegn veirunni. Þá stæðu Evrópubúar vel að vígi þar sem búið væri að bólusetja 66,6 prósent þeirra að fullu gegn veirunni.

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV