Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hvetur fertuga og eldri til örvunarbólusetningar

Grænlenska þingið að utan
 Mynd: Danmarks Radio
Landlæknir Grænlands hvetur alla fertuga og eldri til að þiggja örvunarskammt enda sé hætta á talsverðum veikindum þess aldurshóps af völdum Omíkron-afbrigðis kórónuveirunnar. Bólusetningar barna hefjast innan skamms.

Þrátt fyrir að Omíkron-afbrigðis kórónuveirunnar hafi ekki enn orðið vart á Grænlandi hefur Henrik L. Hansen landlæknir ákveðið að feta í fótspor Dana og stytta þann tíma sem líða má milli annarrar bóluefnasprautu og örvunarskammts.

Áður var miðað við að sex mánuðir og tvær vikur þyrftu að líða á milli en nú hefur sá tími verið styttur um tvo mánuði. Landlæknir kveðst þess fullviss að afbrigðið berist til landsins fyrr en síðar og að smitum muni fjölga talsvert. 

Því var þessi ákvörðun tekin að því er fram kemur í frétt KNR og horft sérstaklega til þess að gefa fertugum og eldri örvunarskammt þar sem sá aldurshópur fær alvarlegustu sjúkdómseinkennin.

Hansen segir að þetta þýði að fólk sem var bólusett í lok júlí geti þegið örvunarskammt núna. Hansen segir brýnt að auka varnir gegn veirunni með örvunarskammti, ekki síst í ljósi þess hve smitnæmt Omíkron-afbrigðið er, nánast á borð við mislinga að mati landlæknisins.

Hann segir það merkja að hver smitaður geti smitað sextán sé sóttvarna ekki gætt. Á Grænlandi er notast við bóluefni Moderna og Pfizer/BioNTech og verður almenningi boðið sama efni við örvunarbólusetningu og þær fyrri.

Ætlunin er að hefja bólusetningar grænlenskra barna á aldrinum fimm til ellefu ára í janúar. Það er nokkuð síðar en upphaflega stóð til en ákveðið var að láta örvunarskammtaátakið ganga fyrir.